Landsframleiðslan á fyrstu sex mánuðum ársins 2015 jókst um 5,2 prósent að raungildi borið saman við fyrstu sex mánuði ársins 2014. Á sama tíma jukust þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, um 7,3 prósent. Einkaneysla jókst um 4,4 prósent, samneysla um 1,0 prósent og fjárfesting um 21,2 prósent. Útflutningur jókst um 9 prósent og innflutningur nokkru meira, eða um 13,6 prósent.
Hagstofan greinir frá í dag. Á sama tíma greinir Hagstofan frá því að hagvöxtur árið 2014 var 1,8 prósent, samkvæmt endurmati á niðurstöðum þjóðhagsreikninga. Neysla og fjárfesting drógu hagvöxtinn áfram á síðasta ári, en þjóðarútgjöld jukust um 5,2 prósent á föstu verðlagi.
Í Hagtíðindum, riti Hagstofunnar, segir að mikinn vöxt fjárfestingar megi alfarið rekja til atvinnuvegafjárfestingar sem jókst um 38 prósent. Á sama tíma dróst íbúðafjárfesting saman um 13,3 prósent og fjárfesting hins opinbera um 0,8 prósent.
Landsframleiðsla á 2. ársfjórðungi 2015, án árstíðarleiðréttingar, jókst um 5,6 prósent frá sama ársfjórðungi í fyrra. Árstíðarleiðrétt jókst hún um 3,3 prósent frá 1. ársfjórðungi 2015.
Í helstu viðskiptalöndum Íslands var ársbreyting landsframleiðslunnar á 2. ársfjórðungi mest í Svíþjóð, 2,9%. Í Bandaríkjunum var hagvöxtur 2,7%, Bretlandi 2,6%, Hollandi 2%, Danmörku 1,8%, Þýskalandi 1,6%, Noregi 1,2%, Frakklandi 1% og Japan 0,7%. Aftur á móti var enginn hagvöxtur í Finnlandi.