Útvarpsstöðin Radio Iceland stendur fyrir tónleikum á Gauknum á laugardaginn, til styrktar munaðarlausum börnum í Nepal. Fjöldi barna er nú á vergangi í Nepal eftir mikinn jarðskjálfta af stærðinni 7,9 sem reið yfir landið þann 25. apríl síðastliðinn og þá reið annar stór eftirskjálfti yfir landið tveimur vikum síðar, sem var af stærðinni 7,4.
Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) á Íslandi hefur hrundið af stað neyðarsöfnun fyrir bágstadda í Nepal, og hægt er að leggja sitt af mörkum til söfnunarinnar hér. UNICEF hefur veitt umfangsmikla neyðarhjálp á jarðskjálftasvæðinu; dreift vatni, hreinlætisgögnum, lyfjum, tjöldum og teppum, veitt börnum sálrænan stuðning, bólusett þau gegn mislingum og sett upp tímabundna skóla.
Að minnsta kosti átta þúsund manns létu lífið í jarðskjálftanum í Nepal, sem olli gífurlegri eyðileggingu á svæðinu. Mynd: EPA
„Okkur langar til að leggja okkar af mörkum til að lina þjáningar Nepala eftir jarðskjálftana, sem kostuðu yfir átta þúsund manns lífið,“ segir Adolf Ingi Erlingsson, útvarpsstjóri Radio Iceland í samtali við Kjarnann. „Öll innkoma af tónleikunum rennur óskipt til samtakanna Ísland-Nepal sem reka munaðarleysingjahæli í höfuðborginni Katmandú. Það eru Íslendingar sem standa að því og tryggt er að hver króna sem safnast fer beint í starfsemi heimilisins. Við erum svo heppin að fá til liðs við okkur flott tónlistarfólk sem sumt ætlar að koma saman sérstaklega af þessu tilefni.“
Starfsfólk Radio Iceland sem stendur fyrir tónleikunum. Mynd: Radio Iceland
Á meðal hljómsveita sem munu troða upp á tónleikunum má nefna Esju, Diktu, Q4U, Greyhound, Kontinuum og Rokkabillíbandið The 59's, en Daníel Ágúst og Bjarni úr Mínus munu koma fram með síðastnefndu hljómsveitinni. Þá verður boðið upp á „rokkabillípylsur“ af útigrillinu.
„Herlegheitin hefjast klukkan 17:00 og standa fram eftir kvöldi. Fyrir þá sem ekki geta hugsað sér að missa af Eurovision verður hægt að fylgjast með keppninni á stórum skjá á staðnum. Við höfum engan ákveðinn aðgangseyri, heldur verður tekið við frjálsum framlögum,“ segir útvarpsstjórinn sem mun sjálfur standa vaktina á grillinu.
Þá má geta þess að íbúar og starfsmenn hjúkrunarheimilisins Markar blása til söfnunar klukkan 16:30 í dag til styrktar neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn í Nepal. Um er að ræða bingó- og pítsuveislu, en fjöldi fyrirtækja hefur lagt málefninu lið með því að gefa vinninga fyrir bingóið. Viðburðurinn fer fram á 1. hæð í Mörk, Suðurlandsbraut 66, og eru allir hjartanlega velkomnir.