Fjármála- og efnahagsráðherra hefur skipað nýja stjórn Fjármálaeftirlitsins (FME). Nýr formaður stjórnarinnar er Ásta Þórarinsdóttir. Þar með hefur Halla Sigrún Hjartardóttir hætt sem formaður, en hún tilkynnti að hún myndi hætta í lok árs 2014 eftir að fjölmörg álitamál tengd viðskiptum hennar rötuðu í fjölmiðla. Kjarninn greindi frá því í desember að nefndarmönnum í efnahags- og viðskiptanefnd, sem vildu fá Höllu Sigrúnu til að svara fyrir álitamálin, hafi verið sagt að hún myndi hætta störfum 3. desember síðastliðinn. Þess vegna myndi hún ekki mæta fyrir nefndina. Hún sat hins vegar sem stjórnarformaður þar til í dag.
Halla Sigrún Hjaltadóttir, fyrrum stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins.
Ásta Þórarinsdóttir lauk BS gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands 1994 og MS gráðu í Investment Management frá City University í London 1996. Hún hefur einnig lokið prófi í verðbréfamiðlun. Ásta starfaði hjá bankaeftirliti Seðlabanka Íslands frá 1994 og síðar Fjármálaeftirlitinu allt til ársins 2005. Hún er framkvæmdastjóri Evu ehf. móðurfélags Sinnum, sem starfar á velferðarsviði. Meðeigandi hennar að Sinnum er Ásdís Halla Bragadóttir, fyrrum bæjarstjóri í Garðabæ og áhrifakona innan Sjálfstæðisflokksins um margra ára skeið.
Auk formanns eiga eftirtaldir aðal- og varamenn sæti í stjórn FME:
- Tómas Brynjólfsson, aðalmaður (varaformaður)
- Arnór Sighvatsson, aðalmaður,
- Friðrik Ársælsson, varamaður,
- Ástríður Jóhannesdóttir, varamaður
- Harpa Jónsdóttir, varamaður