Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, lést á gjörgæsludeild Landspítalans í gærkvöldi. Halldór var 67 ára gamall þegar hann lést. Frá þessu er greint á mbl.is. Banamein hans var hjartaáfall sem Halldór fékk síðastliðinn föstudag.
Greint var frá því í gær að Halldóri væri haldið sofandi í öndunarvél á gjörgæslu Landspítalans eftir að hann fékk alvarlegt hjartaáfall síðastliðinn föstudag. Halldór var staddur í sumarhúsi sínu í Grímsnesi og var fluttur með sjúkrabíl til Reykjavíkur.
Halldór Ásgrímsson á að baki mjög langan feril í stjórnmálum. Hann var þingmaður fyrir Framsóknarflokkinn frá 1974 og þar til hann hætti í stjórnmálum árið 2006. Hann var sjávarútvegsráðherra, dóms- og kirkjumálaráðherra, utanríkisráðherra og síðast forsætisráðherra frá miðjum september 2005 og fram til júnímánaðar 2006. Halldór var auk þess lengi varaformaður og síðar formaður Framsóknarflokksins. Alls gengdi Halldór ráðherraembætti í 19 ár. Síðast starfaði Halldór sem framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, en hann hætti störfum þar árið 2013 eftir sex ára starf.
Halldór lætur eftir sig eiginkonu, Sigurjónu Sigurðardóttur og þrjár dætur, þær Helgu, Guðrúnu Lind og Írisi Huld, auk barnabarna og barnabarnabarna.