Hanna Birna Kristjánsdóttir, þingmaður og fyrrverandi innanríkisráðherra, hlaut í dag jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs.
Fimmtán konur hlutu í dag viðurkenninguna, en í tilefni 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna ákvað Jafnréttisráð að heiðra þær núlifandi konur, sem hafa með störfum sínum á Alþingi og í ríkisstjórn, rutt brautina og stuðlað að auknu jafnrétti á sviði stjórnmálanna. Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu velferðarráðuneytisins.
Þar segir: „Konurnar eiga sammerkt að hafa verið fyrstar núlifandi kvenna til að gegna veigamiklum embættum í íslenskum stjórnmálum, þ.e. sem forseti Alþingis, sem ráðherra og sem formenn þingflokka.“
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, veitti viðurkenningarnar, en auk kvennanna fimmtán var minnst þeirra Ingibjargar H. Bjarnason og Auðar Auðuns, en Ingibjörg var fyrsta konan til að taka sæti á Alþingi árið 1922 og Auður varð meðal annars fyrst kvenna borgarstjóri 1959-1970 og fyrst kvenna til að taka sæti í ríkisstjórn 1970-1971.
Auk Hönnu Birnu hlutu Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna, Guðrún Agnarsdóttir, fyrrverandi þingmaður Kvennalista, Guðrún Helgadóttir, fyrrverandi þingmaður Alþýðubandalagsins, Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, Margrét Frímannsdóttir, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar og Alþýðubandalagsins, Oddný G. Harðardóttir, fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra, Ragnhildur Helgadóttir, fyrrverandi menntamálaráðherra og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Rannveig Guðmundsdóttir, fyrrverandi félagsmálaráðherra, Salóme Þorkelsdóttir, fyrrverandi forseti Alþingis, Sigríður Anna Þórðardóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, fyrrverandi umhverfis og heilbrigðis- og tryggingarmálaráðherra, Svanfríður Jónasdóttir, fyrrverandi þingmaður Þjóðvaka, Hreyfingar fólksins, Þingflokks jafnaðarmanna og Samfylkingar, og Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra og utanríkisráðherra.