Hanna Birna Kristjánsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks og fyrrverandi innanríkisráðherra, tekur sæti á Alþingi að nýju þann 27. apríl næstkomandi, eða eftir slétta viku. RÚV greinir frá málinu, og að Hanna Birna hafi staðfest endurkomudagsetninguna við fréttastofu.
Kjarninn greindi frá því á dögunum að Hanna Birna stefndi enn ótrauð á að snúa aftur á þing, og von væri á henni til þingstarfa í næstu viku. Nú hefur endanleg dagsetning endurkomu hennar fengist staðfest.
Hanna Birna sagði af sér sem innanríkisráðherra 21. nóvember síðastliðinn vegna Lekamálsins og óskaði eftir ótímabundnu leyfi frá þingstörfum í kjölfarið. Hún þáði ekki þingfarakaup á meðan.
Í áðurnefndri frétt Kjarnans staðfesti Sigríður Á. Andersen, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins sem tók sæti á Alþingi fyrir Hönnu Birnu, að hún hefði átt í nýlegum samskiptum við innanríkisráðherrann fyrrverandi þar sem hún hafi tilkynnt henni að engin breyting hafi orðið á áformum hennar um að setjast aftur á þing.
Í bréfi sem Hanna Birna sendi Ögmundi Jónassyni, formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, 16. mars síðastliðinn, þar sem hún afþakkaði boð nefndarinnar um að ræða Lekamálið, kom fram að hún myndi snúa aftur til þings eftir miðjan apríl.