Hannes Smárason, fyrrum stjórnarformaður og forstjóri FL Group, var í morgun sýknaður í héraðsdómi Reykjavíkur. Þetta kemur fram á mbl.is. Hannes var ákærður fyrir að hafa dregið sér tæpa þrjá milljarða króna af reikningi FL Group á meðan að hann var stjórnarformaður félagsins. Fénu á Hannes svo að hafa ráðstafað til Fons eignarhaldsfélags, þá í eigu Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, sem notuðu það til að borga fyrir danska lággjaldarflugfélagið Sterling á árinu 2005.
Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 14. nóvember í fyrra. Héraðsdómur féllst á frávísunarkröfu Hannesar í mars, en Hæstiréttur Íslands ógilti svo frávísunina í aprílmánuði síðastliðnum. Aðalmeðferð hófst loks 28. janúar síðastliðinn, tæpum tíu árum eftir að hið ætlaða brot átti sér stað.
Sérstakur saksóknari fór fram á að Hannes yrði dæmdur í tveggja til þriggja ára fangelsi fyrir fjárdrátt í Sterling-málinu. Verjandi Hannesar, Gísli Guðni Hall, byggði vörn hans á því að ekki hafi verið sýnt fram á að bindandi fyrirmæli hafi verið gefin um millifærsluna eða ekki. Hannes sagðist sjálfur vera saklaus af ákærunni og að ekkert benti til þess að millifærslan hefði yfir höfuð átt sér stað.