Vefhönnuðurinn Haraldur Þorleifsson er tilnefndur til Awwwards vefverðlauna í flokknum besti sjálfstæði hönnuðurinn/listræni stjórnandi ársins. Þar keppir hann við 13 aðra vefhönnuði, m.a. yfirhönnuð Spotify, að því er fram kemur í tilkynningu.
„Þá er fyrirtæki Haraldar, Ueno, tilnefnt fyrir bestu vefsíðu ársins fyrir Dropbox. Önnur fyrirtæki sem hlutu tilnefningar í þeim flokki eru m.a. Google, Warner Bros og Volkswagen,“ segir í tilkynningunni.
Á síðasta ári kepptu vefir frá Apple, Google, Pharrell Williams, Adobe, Nike o.fl. um Awwwards-verðlaunin en verðlaunaafhendingin sjálf fer fram í Barcelona dagana 24.-25. febrúar næstkomandi.
„Haraldur er einn eftirsóttasti vefhönnuður heims um þessar mundir og hefur tekið þátt í hönnun fyrir fyrirtæki á borð við Google, Dropbox, Pinterest, Microsoft, Cisco, Medium, The Economist, Reuters og Airbnb. Haraldur hefur unnið fjölmörg alþjóðleg verðlaun á undanförnum árum, m.a. Webby-verðlaun í tveimur flokkum árið 2013 fyrir hönnun á kynningarsíðu fyrir Google Maps en hann fékk einnig tvær Webby tilnefningar fyrir hönnun á eigin vef árið 2014,“ segir í tilkynningu.
Haraldur rekur fyrirtæki sitt Ueno frá San Francisco en það er einnig með starfsemi hér á landi.
Verðlaunin verða afhent í Barcelona eftir mánuð.