Þolinmæði Landspítalans gagnvart sjúkrahóteli Sinnum ehf. í Ármúla er á þrotum. Ítrekuðum athugasemdum spítalans og eftirlitsaðila um rekstur hótelsins hefur ekki verið sinnt af Sjúkratryggingum, sem telja spítalann beita tilefnislausum athugasemdum gegn rekstraraðila sjúkrahótelsins, Sinnum ehf.
Greint er frá deilum Landspítalans og Sjúkratrygginga vegna Sinnum ehf. á fréttavef RÚV en málið verður til umfjöllunar í Kastljósinu í kvöld. Fyrirtækið hefur rekið sjúkrahótel frá því árið 2011 en reksturinn var áður í höndum Landspítalans. Sjúkratryggingar Íslands buðu út reksturinn í samvinnu við Landspítalann. Sinnum átti þar lægsta boð upp á 90 milljónir króna á ári.
Kastljós hefur undir höndum gögn sem sýna nær stanslausar deilur milli Sjúkratrygginga Íslands og Landspítalans. Forstjóri Sjúkratrygginga telur samninga við Sinnum hafa reynst vel og að Landspítalinn hafi „beitt sér fyrir því að koma með tilefnislausar athugasemdir í tengslum við samninginn við Sinnum“.
Í viðtali við Kastljós í kvöld sakar forstjóri Sjúkratrygginga Íslands. Landspítalann um að stýra vinnu eftirlitsaðila, sem einnig hefur gert athugasemdir við rekstur Sinnum ehf. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur ítrekað gert athugasemdir við aðbúnað og leyfismál á sjúkrahótelinu undanfarin ár. Það hafa starfsmenn, sjúklingar og aðstandendur einnig gert.