Háskóli Íslands hefur stefnt Friðriki Eysteinssyni, fyrrum aðjúnkt við viðskiptafræðideild skólans, fyrir héraðsdóm Reykjavíkur til að fá úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál um að Friðrik eigi að fá afhenta skýrslu um vinnuumhverfi Viðskiptafræðideildar skólans hnekkt.
Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að Friðrik eigi að fá skýrsluna afhenta, en hann er á meðal þeirra sem fjallað er um í henni, í janúar síðastliðnum. Háskóli Íslands sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem kom fram að hann ætli ekki að una úrskurðinum heldur fara með málið fyrir dómstóla. Réttaráhrifum ákvörðunarinnar verður frestað á meðan.
Í tilkynningu sem Friðrik hefur sent Kjarnanum greinir hann frá því að honum hafi verið stefnt fyrir dómstóla í gær vegna þessa. Þar segir einnig: „Mín eina sök í málinu er sú að hafa óskað eftir afriti af áveðinni skýrslu eins og ég á rétt og og hafa kært síðan kært höfnun Háskóla Íslands á afhendingu hennar til úrskurðarnefndar um upplýsingamál!
Hin raunverulega ástæða Háskóla Íslands fyrir því að berjast gegn því með kjafti og klóm að ég fái afrit af umræddri skýrslu kristallast í eftirfarandi setningu í bréfi hans til úrskurðarnefndarinnar, „Það kæmi sér mjög illa fyrir deildina og háskólann í heild ef skýrslan yrði gerð opinber.““
Tilkynning Friðriks Eysteinssonar:
„Í tilefni af fréttatilkynningu forseta Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands í gær til fjölmiðla þess efnis að Háskóli Íslands hafi synjað mér afhendingu afrits af skýrslu sálfræðistofunnar Lífs og sálar ehf. er varðaði m.a. vinnuumhverfi Viðskiptafræðideildar skólans sem ég átti rétt á skv. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 enda hefur skýrslan að geyma upplýsingar um mig sjálfan.
Háskóli Íslands byggði m.a. synjun sína á því, eins og sagði í orðrétt í bréfi hans til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, "Skýrslan varðar ekki upplýsingar um A (þ.e. mig - innskot mitt) í skilningi 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012." Í úrskurði nefndarinnar segir hins vegar, líka orðrétt, "Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur engum vafa undirorpið að í skýrslunni sé fjallað sérstaklega um kæranda eins og hann heldur í raun fram og því beri að afgreiða kæru hans á grundvelli 14. gr. upplýsingalaga."
Ljóst er af ofangreindu að Háskóli Íslands reyndi vísvitandi að villa um fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál!
Háskóli Íslands vildi ekki una úrskurðinum og krafðist þess að úrskurðarnefndin tæki málið upp að nýju. Þeirri kröfu skólans var hafnað.
Háskóli Íslands hefur m.a. borið fyrir sig trúnaði í þessu máli, það er notað hann sem skálkaskjól (ég nota þetta orð vísvitandi). Hið rétta varðandi trúnaðinn er eftirfarandi. Í bréfi Háskóla Íslands til úrskurðarnefndarinnar segir m.a.,“... að í skýrslunni sem send yrði verkbeiðanda (þ.e. Háskóla Íslands – innskot mitt) myndi nafn þeirra (þ.e. starfsmanna – innskot mitt) ekki koma fram og ekki yrði heldur vitnað beint í frásögn þeirra.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál athugaði skýrsluna. Hún taldi að almennt séð væri ekki, „af þeim upplýsingum einum sem þar koma fram, þ.e. án þess að viðbótarupplýsingar kæmu til, unnt að bera kennsl á eða rekja einstök efnisatriði til tiltekinna nafngreindra einstaklinga, jafnvel þótt einhverjir staðkunnugir kynnu að geta getið sér til um slík tengsl. Á stöku stað væru þó slíkar upplýsingar, þ.e. persónuupplýsingar, en þær væru hvorki viðkvæmar né að öðru leyti þess eðlis að telja mætti hagsmuni viðkomandi (þ.e. Háskóla Íslands – innskot mitt) af því að upplýsingunum væri haldið leyndum, vega þyngra en en hagsmunir kæranda (þ.e. mín – innskot mitt) af því að fá aðgang að þeim.“
Að lokum sagði nefndin, „Úrskurðarnefnd um upplýsingamál þykir rétt að taka fram að loforð stjórnvalds um trúnað um gögn í vörslu þess gengur ekki framar þeim ákvæðum upplýsingalaga sem leiða til þess að aðgangur skuli heimilaður, þ.e.a.s. að loforð stjórnvalda eru marklaus fari þau í bága við ákvæði upplýsingalaga um upplýsingaskyldur þeirra.“
Svo mörg voru ofangreind orð og segja í raun allt sem segja þarf um rök Háskóla Íslands um trúnað eða réttara sagt skort hans á þeim!
Það er deginum ljósara að Háskóli Íslands reyndi að afvegaleiða úrskurðarnefndina varðandi trúnað í bréfi sínu til hennar og nú fjölmiðla og lesendur þeirra, áhorfendur eða hlutstendur með álíka villandi fréttatilkynningu!
En að lokum varðandi hinn meinta trúnað.
Í fréttatilkynningu Háskólans segir, „Starfsmenn verða að geta tjáð sig opinskátt um það sem þeir telja að betur megi fara á vinnustaðnum án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því hver fái aðgang að upplýsingunum eða hvernig þær verði notaðar. Af hálfu Lífs og sálar ehf. var lögð áhersla á að um skýrsluna ríkti trúnaður enda voru viðtöl við starfsmenn tekin í trúnaði. Var skýrslan því sérstaklega merkt sem trúnaðarmál og fengu þeir starfsmenn sem rætt var við ekki aðgang að henni heldur aðeins yfirstjórnendur.“
Og þarna stendur hnífurinn aftur í kúnni í röksemdafærslu Háskóla Íslands. Trúnaðurinn við starfsmenn átti nefnilega að beinast að því að yfirstjórnendur gætu ekki rakið það sem kom fram í viðtölum við starfsmenn Viðskiptafræðideildarinnar til þeirra (sbr. nafn þeirra myndi ekki koma fram og ekki yrði heldur vitnað beint í frásögn þeirra). Með sömu rökum og notuð voru fyrir því að hafna því að ég fengi aðgang að skýrslunni hefði því átt að hafna því að yfirstjórnendur fengju hann!
Að síðustu og til hreinnar skemmtunar.
Félagsvísindasvið telur „mikilvægt að fá endanlega úr því skorið hvort afhenda þurfi slík gögn (umrædda skýrslu í þessu tilfelli).“ Það hefur því ákveðið að bera málið undir dómstóla og óskað flýtimeðferðar. Henni var hafnað.
Mér var hins vegar stefnt í gær.
Í stefnunni segir m.a."
"Ásgerður Ragnarsdóttir hdl. Lex, Borgartúni 26, 105 Reykjavík
GJÖRIR KUNNUGT: Að hún þurfi fyrir hönd Háskóla Íslands, kt. 600169-2039, Suðurgötu, 101 Reykjavík, að höfða mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur Friðrik Eysteinssyni, kt. 120159-3999, Hamrahlíð 23, 105 Reykjavík, til ógildingar á úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 21. janúar 2015.
DÓMKRÖFUR: Stefnandi krefst þess að felldur verði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 566/2015 í máli ÚNU 13120003 frá 21. janúar 2015 þar sem stefnanda var gert að verða við beiðni stefnda um aðgang að skýrslu, dags. 20. nóvember 2013, sem unnin var af Lífi og sál, sálfræðistofu ehf. fyrir Félagsvísindasvið Háskóla Íslands.
Stefnandi krefst jafnframt málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda.
...
FYRIRKALL: Fyrir því stefnist hér með Friðriki Eysteinssyni, kt. 120159-3999, Hamrahlíð 23, 105 Reykjavík, til að mæta á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð verður í dómsal nr. 102 í dómhúsinu við Lækjartorg, þann 14. apríl 2015 kl. 10:00, til þess þar og þá að sjá skjöl og skilríki í rétt lögð, á dómkröfur og sókn sakar að hlýða og til að leggja fram gögn af sinni hálfu, en útivistardómur kanna að falla í málinu, sæki stefndi ekki þing."
Mín eina sök í málinu er sú að hafa óskað eftir afriti af áveðinni skýrslu eins og ég á rétt og og hafa kært síðan kært höfnun Háskóla Íslands á afhendingu hennar til úrskurðarnefndar um upplýsingamál!
Hin raunverulega ástæða Háskóla Íslands fyrir því að berjast gegn því með kjafti og klóm að ég fái afrit af umræddri skýrslu kristallast í eftirfarandi setningu í bréfi hans til úrskurðarnefndarinnar, „Það kæmi sér mjög illa fyrir deildina og háskólann í heild ef skýrslan yrði gerð opinber.““