HB Grandi á 12,2 prósent af heildarverðmæti aflahlutdeilda allra tegunda. Það er meira en leyfilegt er samkvæmt lögum en samkvæmt þeim má hlutfall einstakra útgerða í heildarkvóta ekki fara yfir tólf prósent. Þetta kemur fram í nýjum útreikningum Fiskistofu á aflahlutdeild stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins sem birtir voru í dag.
Þetta er í þriðja sinn á tveimur árum sem það gerist að HB Grandi fer yfir tólf prósent markið. Í janúar 2013 átti HB Grandi 12,14 prósent af heildarverðmæti aflahlutdeilda og fékk þá sex mánaða frest til að losa sig við umframkvótann. Myndi það ekki gerast félli umfram kvótinn niður og yrði úthlutaður öðrum. Í febrúar 2014 átti fyrirtækið 12,29 prósent.
Í lok september 2014 átti HB Grandi 11,78 prósent af heildarverðmæti aflahlutdeilda, en samtals 50.500 þorskígildistonn. Samkvæmt nýjum tölum frá Fiskistofun á fyrirtækið nú rúmlega 56.500 þorskígildistonn eða 12,2 prósent af heildarverðmæti aflahlutdeilda.
Samherji á næst mest allra sjávarútvegsfyrirtækja af kvóta, eða 6,6 prósent af heildarværmæti hans. Þar á eftir kemur Síldarvinnslan með 5,9 prósent, og Vinnslustöðin og Ísfélag Vestmannaeyja eiga 4,7 prósent kvótans hvor.