Eins og Kjarninn greindi frá í dag þá á sjávarútvegsfyrirtækið HB Grandi 12,2 prósent af heildarverðmæti aflahlutdeilda allra tegunda, samkvæmt útreikningi Fiskistofu. Það er hærra hlutfall en leyfilegt er samkvæmt lögum, en samkvæmt þeim má hlutfall einstakra útgerða í heildarkvóta ekki vera umfram tólf prósent.
Sjávarútvegsfyrirtækið birti frétt inn á heimasíðu sinni af þessu tilefni síðdegis í dag. Þar ítreka stjórnendur fyrirtækisins að engar breytingar hafi átt sér stað á aflahlutdeildum HB Granda undanfarin ár. Þrátt fyrir það hafi aflahlutdeild félagsins samkvæmt útreikningi Fiskistofu hækkað úr 9,65 prósentum árið 2009 upp í 12,2 prósent eins og hún mælist nú. Samkvæmt frétt HB Granda skýrist breytingin af verðsveiflum á alþjóðlegum mörkuðum fyrir afurðir fyrirtækisins.
Í fréttatilkynningunni er haft eftir Vilhjálmi Vilhjálmssyni forstjóra HB Granda:„...Það sem veldur þessum breytingum er aðallega hærri þorskígildisstuðull karfa. Við eigum von á því að hlutdeildin fari vel niður fyrir tólf prósent við næsta útreikning Fiskistofu. Sem dæmi um hversu mikil áhrif verðsveiflur geta haft á niðurstöðuna þá má nefna að þorskígildi gullkarfa var 0,42 fiskveiðiárið 2008/2009 en er 0,85 á yfirstandandi fiskveiðiári. Allt bendir til að þorskígildi gullkarfa lækki aftur við næsta útreikning, en karfi er stór hluti af okkar aflaheimildum, og að hlutdeild félagsins fari þá aftur undir þessi lögbundnu mörk.“