Það hafa verið miklir umbrotstímar í íslensku samfélagi undanfarin ár. Margt hefur áunnist í baráttunni við að endurreisa þar og efla. Í dag er til að mynda góður hagvöxtur, lítil verðbólga og lítið atvinnuleysi. Ákveðnir atvinnuvegir, sér í lagi sjávarútvegur og ferðaþjónusta, eru í miklum sóknarham.
Ísland stendur hins vegar enn frammi fyrir risavöxnum vandamálum sem nauðsynlegt verður að takast á við í allra nánustu framtíð. Þeirri baráttu verður ekki frestað mikið lengur. Á þessum tímamótum Kjarnans þótti ritstjórn hans rétt að útlista þau fjögur helstu. Þau eru glíman við fjármagnshöft, breytingar á lífeyrissjóðakerfinu, skjaldborg um heilbrigðiskerfið og staða Íslands í alþjóðasamfélaginu. Hér að neðan verður fjallað um heilbrigðiskerfið.
Endurnýjun lækna er ekki að eiga sér stað
Stjórnvalda bíður mjög erfitt verkefni við að standa vörð um íslenska heilbrigðiskerfið. Við blasir krísuástand. Tækjubúnaður er annaðhvort úreltur eða ekki til, húsnæði heilbrigðisstofnanna, og sérstaklega Landspítalans, er óboðlegt fyrir slíka starfsemi og skapar mikið óhagræði, álag á starfsfólk er gríðarlegt og samkeppni um það mikil. Þegar gríðarlegur niðurskurður bætist ofan á þetta ástand má ljóst vera að sprungurnar stækka ansi hratt. Og því fagfólki sem vill vinna við þessum aðstæður fækkar hratt og örugglega.
Fara til Noregs og koma aldrei aftur
Frá árinu 2008 hafa vel á fimmta hundruð íslenskir hjúkrunarfræðingar fengið leyfi til að starfa í Noregi, en þangað hefur straumurinn legið að mestu. Í samtali við RÚV í febrúar síðastliðnum sagði Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, að markaðurinn í Noregi virtist botnlaus og gæti auðveldlega gleypt hjúkrunarfræðistéttina hér á landi alla. Ástæður þessa flótta eru auðvitað fyrst og fremst vegna þær að launin eru miklu, miklu, miklu hærri í Noregi, og víðar í Skandinavíu, en hér. Auk þess spilar inn í að vinnuaðstæður eru í flestum tilfellum miklu betri og álagið og mönnun stofnana allt önnur.
Ástandið innan læknastéttarinnar er ekkert skárra. Það er í raun enn alvarlegra. Fyrr í þessum mánuði sagði Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, frá því í samtali við RÚV að nýliðun lækna væri ekki nálægt því að anna læknaþörf Íslendinga. Helmingi fleiri læknar myndu auk þess fara á eftirlaun á næstu fimm árum en fimm árin á undan. Flestir helstu sérfræðilæknar þjóðarinnar eru að fara á eftirlaun á allra næstu árum og ekki virðist hægt að manna þær stöður á ný. Nýútskrifaðir læknar, og þeir sem eru erlendis í sérfræðinámi, virðast ekki hafa neinn áhuga á því að starfa hérlendis. Ástæðurnar eru nákvæmlega þær sömu og hjá hjúkrunarfræðingum: hér eru mun lægri laun, verra starfsumhverfi og miklu meira álag.
Er Ísland velferðarríki?
Samhliða eru Íslendingar að eldast hratt og álagið á heilbrigðiskerfið mun aukast enn frekar á allra næstu árum vegna þessa. Eldra fólk glímir enda við fleiri heilbrigðiskvilla en það yngra. Viðbrögðin við þessu ástandi hafa fyrst og síðast verið þau að auka kostnaðarþátttöku sjúklinga. Þegar horft er til þeirra vandamála sem Ísland stendur frammi fyrir í lífeyrissjóðamálum sínum er ljóst að slíkt mun ekki ganga til lengdar ef Ísland vill stæra sig áfram af því að bjóða upp á velferðarkerfi fyrir alla, ekki bara þá sem eiga peninga.
Þessi grein er hluti af mun stærri umfjöllun um helstu áskoranir sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir sem birtist í Kjarnanum í síðustu viku.