Helga Þórisdóttir, staðgengill forstjóra og sviðsstjóri lögfræðisviðs Lyfjastofnunar, hefur verið skipuð í embætti forstjóra Persónuverndar frá og með 1. september næstkomandi. Ólöf Nordal innanríkisráðherra skipaði Helgu í embættið. Starfið var auglýst til umsóknar 31. mars síðastliðinn og var Helga á meðal sex umsækjenda sem sóttu um það. Skipan Helgu er til fimm ára.
Aðrir umsækjendur voru:
Alma Tryggvadóttir, lögfræðingur, settur forstjóri Persónuverndar.
Hilmar Einarsson, lögfræðingur, sjálfstætt starfandi.
Kolbrún Ásta Bjarnadóttir, nemi.
Sif Konráðsdóttir, lögfræðingur, Senior Officer á samkeppnis- og ríkisaðstoðarsviði EFTA.
Þorsteinn Sigurðsson, menntaður í tölvunarfræði og rafeindavirkjun, afgreiðslumaður.
Helga Þórisdóttir.
Hörður Helgi Helgason var skipaður forstjóri Persónuverndar í mars 2013 til eins árs vegna veikinda Sigrúnar Jóhannesdóttur, setts forstjóra Persónuverndar. Hjördís Stefánsdóttir tók svo við starfinu í apríl 2014 til eins árs. Alma Tryggvadóttir mun gegna stöðunni til 31. júlí.
Helga Þórisdóttir lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1995 og námi í stjórnun frá IESE Business School á Spáni 2015. Helga hefur setið margs konar námskeið á sviði lögfræði og stjórnsýslu og stjórnunar. Hún hefur starfað hjá embætti ríkissaksóknara, á nefndasviði Alþingis, hjá EFTA í Brussel og menntamálaráðuneytinu. Frá árinu 2008 hefur Helga starfað hjá Lyfjastofnun, sem sviðsstjóri lögfræðisviðs og staðgengill forstjóra. Árið 2012 til 2013 var hún settur forstjóri Lyfjastofnunar.