Helmingur fólks á Íslandi á 750 þúsund krónur eða minna, samkvæmt upplýsingum sem lesa má útúr gögnum frá Ríkisskattstjóra. Þar af eru 30 prósent þjóðarinnar sem eiga minna en ekkert, en RÚV gerði að umtalsefni í umfjöllun sinn í gær að eitt prósent þjóðarinnar ætti tæplega fjórðung af öllum auði þjóðarinnar, og setti meðal annars í samhengi við rannsókn mannúðarsamtakanna Oxfam, sem kynnt var árlegum fundi í Davos í Sviss þar sem ríkasta fólkið í heiminum fundar með þjóðarleiðtögum og fleirum, á þriggja daga fundi um stöðu mála í heiminum. Samkvæmt henni á ríkasta eitt prósent jarðar um helmning auðs í heiminum, og 80 ríkustu einstaklingarnir eiga meira en fátækasti helmingur jarðarbúa.
Í frétt RÚV frá í gær kom fram að ríkasta eitt prósentið á Íslandi, um 1.900 skattgreiðendur, á að meðaltali 244 milljónir króna umfram skuldir. Hið ríka eina prósent á því tæplega 23% alls auðs landsmanna.
Þessi mynd var birt í frétt Tryggva Aðalbjörnssonar fréttamanns, í fréttatíma RÚV í gær. Hún sýnir skiptingu auðs þjóðarinnar.
Sú fjölskylda eða sá einstaklingur sem er akkúrat í miðjunni á um 750 þúsund krónur umfram skuldir.
Í frétt RÚV, frá því í gær, kom fram að samkvæmt gögnunum sá hluti eigna sem væri í verðbréfum væri skráður á nafnvirði, sem oft er aðeins hluti af raunverulegu verðmæti þeirra. Að teknu tilliti til þess getur munurinn á eignastöðu hinna ríkustu og þeirra sem minnst eiga, verið enn meiri. Upplýsingar um eignastöðu fólks, eftir því hvort það á húsnæði eða ekki, má sjá hér í gögnum sem Páll Kolbeins tók saman fyrir Alþingi.