Um helmingur landsmanna, 50,1 prósent, er andvígur inngöngu Íslands í Evrópusambandið (ESB). Fylgjendur aðildar eru 34,2 prósent en 15,6 prósent segjast hvorki vera fylgjandi né andvígir inngöngu í sambandið. Þetta kemur fram í könnun sem Gallup gerði fyrir Heimssýn, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum, dagana 16. til 27. júlí.
Í tilkynningu frá Heimssýn segir að andstaðan sé mest hjá þeim sem myndu kjósa flokkana sem mynda ríkisstjórn. Könnunin sýnir að 95 prósent þeirra sem myndu kjósa Framsóknarflokkinn þegar könnunin var gerð séu á móti inngöngu í Evrópusambandið og 83 prósent þeirra sem sögðust ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn eru á móti. Hins vegar er 40 prósent af stuðningsflokki Vinstri grænna á móti inngöngu en 33 prósent hlynnt henni.
Kjósendur Samfylkingarinnar eru mest fylgjandi inngöngu í Evrópusambandið, en 78 prósent þeirra vilja inn í það.
Í tilkynningunni segir að hjá þeim sé þó óvissan mest að aukast því fjöldi þeirra sem er hvorki hlynntur né andvígur tvöfaldast frá síðustu könnun sem gerð var í febrúar. Þá eru tveir af hverjum þremur fylgjendum Bjartrar framtíðar
hlynnt inngöngu í Evrópusambandinu og 40 prósent af fylgjendum Pírata.
Ef eingöngu er tekið mið af þeim sem eru annað hvort hlynnt eða andvíg inngöngu Íslands í Evrópusambandið þá eru 59,4 prósent andvíg aðild að ESB og 40,6 prósent. hlynnt aðild.