Helmingur þeirra kjósenda sem kusu Bjarta framtíð í síðustu alþingiskosningum, vorið 2013, mynd kjósa Pírata ef gengið yrði til kosninga í dag. Fimmtungur kjósenda Framsóknarflokksins myndi kjósa Pírata en um tíu prósent þeirra Sjálfstæðisflokkinn ef kosið yrði ný. Þetta er meðal þess sem kemur fram á greiningu á fylgissveiflum stjórnmálaflokkanna sem Gallup hefur birt á heimasíðu sinni. Sveiflurnar sýna tryggð kjósenda við stjórnmálaflokka frá síðustu kosningum og í gegnum þær skoðanakannanir sem Gallup hefur framkvæmt síðan.
Samkvæmt greiningunni taka Píratar fylgi frá öllum flokkum, en fylgi flokksins er 30 prósent samkvæmt nýjustu könnun Gallup. Könnun sem MMR birti nokkrum dögum seinna mældist fylgi þeirra enn hærra, eða 32 prósent. Píratar fengu 5,1 prósent atkvæða í síðustu alþingiskosningum.
Í greiningu Gallup kemur líka fram að tryggð kjósenda er áberandi mest hjá Pírötum, em 93 prósent þeirra sem kusu þá í síðustu þingkosningum myndu kjósa þá aftur í dag. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru næst tryggastir. Þrír af hverjum fjórum myndu kjósa flokkinn aftur.
Hægt er að sjá gagnvirka framsetningu á fylgissveiflunum hér.
Ótrúleg fylgissveifla
Píratar mældust með 32 prósenta fylgi í skoðanakönnun MMR sem var birt 4. maí. Síðastliðinn. Flokkurinn mælist langstærstur, með um tíu prósentum meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn, sem mælist með 22 prósent.
Aðrir flokkar eru með um og undir tíu prósenta fylgi samkvæmt könnuninni. Framsóknarflokkurinn mælist með 10,8 prósenta fylgi eins og Vinstri græn, Samfylkingin mælist með 10,7 prósent og Björt framtíð 8,3 prósent.
Skömmu áður birtist nýr Þjóðarpúls Gallup þar sem Píratar mældust einnig stærsti stjórnmálaflokkurinn, með rúmlega 30 prósenta fylgi.
Þar mældist fylgi Vinstri grænna 10,6 prósent og hækkaði örlítið milli kannanna, en aðrir flokkar á þingi misstu fylgi á sama tíma. Sjálfstæðisflokkurinn mældist í þjóðarpúlsinum með minnsta fylgi á kjörtímabilinu eða 22,9 prósent, og tapaði 2,1 prósentustigi, Framsóknarflokkurinn mældist með 10,1 prósent og tapaði 0,7 prósentum, Samfylkingin tapaði 1,7 prósentum á milli kannanna og mældist með 14,1 prósent, talsvert meira en í könnun MMR. Þá hélt fylgi Bjartrar framtíðar áfram að minnka, en flokkurinn mældist með 7,8 prósent og tapaði 3,1 prósentustigi á milli kannanna Gallup. Björt framtíð hefur samkvæmt þessu tapað um tveimur fimmtu af sínu fylgi á tveimur mánuðum og mældist með minnsta fylgi sem mælst hefur við flokkinn á kjörtímabilinu í þjóðarpúlsinum.