Helmingur aðspurðra í nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins telur að það hafi ekki verið rétt af Alþingi að samþykkja lög á verkfall Félags íslenska hjúkrunarfræðinga og Bandalags háskólamanna (BHM). Um 37 prósent telja að það hafi verið rétt ákvörðun að samþykkja lög á verkfallið og um þriðjungur er óákveðinn.
Þegar einungis eru skoðuð svör þeirra sem tóku afstöðu sést að 58 prósent eru andvíg því að lög hafi verið sett á verkfallið en 42 prósent fylgjandi því.
Ólafur Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segist túlka niðurstöðuna sem stuðning við málstað félagsins og að meirihluti þjóðarinnar vilji að það nái einhverjum árangir í sinni kjarabaráttu.
Lög á verkfall félaganna tveggja voru samþykkt á Alþingi síðastliðinn laugardag. Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mælti fyrir lögunum. Síðan að þau voru sett hafa 91 hjúkrunarfræðingar sagt upp störfum og margir fleiri íhuga að gera það. Hluti þeirra sem hafa sagt upp störfum eru með mikla sérhæfingu og áratugareynslu. Til viðbótar hafa 21 geislafræðingur sem starfa á Landsspítalanum sagt upp störfum og sex lífeindafræðingar.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra sagði í ræðustól Alþingis í vikunni að hjúkrunarfræðingar krefjist 40 til 50 prósenta launahækkanna en ríkið hafi boðið þeim um það bil 20 prósenta hækkun á næstu árum.