Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra var í viðtali við Ríkisútvarpið í gærkvöldi þar sem hún upplýsti að hún hygðist ekki leggja til neinar frekari breytingar á rammaáætlun í þinginu í vetur.
Sem kunnugt er varð uppi fótur og fit síðastliðinn vetur þegar meirihluti atvinnuveganefndar, með Jón Gunnarsson í broddi fylkingar, ákvað að bæta við nokkrum nýtingarkostum á milli umræðna í þinginu. Ástæða þess var meðal annars sú að þetta þótti brjóta gegn samþykktu verklagi í kringum rammaáætlunarferlið allt saman. Og nú segist Sigrún engar breytingar ætla að gera, en lokar ekki á möguleikann á því að aðrir þingmenn leggi þær til.
Svo sagði Sigrún um rammaáætlunarferlið: „Ég hef tröllatrú á þessu ferli sem Alþingi bjó til og vil að það fái að vinna sína vinnu og skila mér í hendur tillögu. Hvort ég geri breytingar á tillögunni þegar ég fæ hana í hendur get ég ekki sagt til á þessari stundu.“
Sem sagt, Sigrún hefur tröllatrú á ferlinu sem Alþingi bjó til, og vill að verkefnisstjórnin fái að vinna sína vinnu. Tröllatrúin nær þó ekki lengra en svo að það getur vel verið að hún fari ekki eftir faglegum ráðleggingum verkefnisstjórnarinnar ef þær henta ekki stefnu stjórnvalda.
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.