Verkefnastofa Borgarlínu rýndi í haust í kosti og galla tveggja mismunandi leiða sem varða legu Borgarlínu á milli Hamraborgar og Smáralindar. Eindregin niðurstaða þeirrar vinnu var sú að betra sé að borgarlínuleiðin á þessu svæði í Kópavogi komi til með að liggja um Hafnarfjarðarveg og Fífuhvammsveg í stað þess að liggja um Digranesveg og Dalveg.
Þetta kemur fram í minnisblaði verkefnastofu Borgarlínu um framkvæmdina, sem lagt var fram á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Kópavogsbæjar í síðustu viku, en það var unnið að beiðni umhverfissviðs Kópavogsbæjar.
Í minnisblaðinu segir að allt frá því að byrjað var að greina mögulega legu Borgarlínu í Kópavogi hafi þessir tveir valkostir helst þótt koma til greina. Hafnarfjarðarvegur og Fífuhvammsvegur þóttu einnig fýsilegri kostu í fyrri samanburði, sem Strætó hafði látið vinna.
Umræddur kafli er hluti af annarri lotu Borgarlínu, en frumdrög að þeirri lotu eru á fyrstu stigum hönnunarvinnu, samkvæmt því sem fram kemur í minnisblaðinu.
Meira pláss fyrir sérrými og stór skiptistöð við Fífuna
Helstu kostir þess að láta Borgarlínu aka um Hafnarfjarðarveg og Fífuhvammsveg eru sagðir þeir að það samnýti borgarlínuframkvædmir á Hafnarfjarðarvegi, samnýti framkvæmdir við stofnstíg á hjólreiða á Fífuhvammsvegi, rými í götusniðinu sé gott fyrir sérrými Borgarlínu, hjólastíga og gangstéttar og að hægt yrði að tryggja sérrýmið alla leið, sem myndi skila sér í styttri ferðatíma á milli Hamraborg og Smáralinda.
Þá er bein tenging við Fífuna sögð kostur, en þar meginmiðstöð íþróttafélagsins Breiðabliks staðsett og oft blásið til mannmargra viðburða. Einnig segir að þessi valkostur tengi Garðabæ og Hafnarfjörð betur við Smáralind, með skiptistöð í Fífunni.
Það er einnig talið þessum valkosti til tekna að hægt yrði að setja upp svokallað „commuter“- bílastæði við Fífuna, eða bílastæði þar sem hægt væri að skilja bílinn eftir og hagnýta sér svo almenningssamgöngur í framhaldinu.
Betri tenging við MK ef farið væri um Digranesveg
Það eru þannig taldir upp fjölmargir kostir við að fara Hafnarfjarðarveginn og Fífuhvammsveginn í stað Digranesvegar og Dalvegar, en einnig eru gallar dregnir fram. Bæði eru framkvæmdir sagðar flóknar við Hamraborg og í botni Kópavogsdals, auk þess sem gönguleið frá borgarlínustöð að Menntaskólanum í Kópavogi (MK) yrði lengri ef þessi leið yrði fyrir valinu.
Verkefnastofan segist þó telja að sá galli sé „hverfandi“ þar sem gönguleiðin frá Hamraborg að MK sé um 600 metrar og að áform séu uppi um að bæta umhverfi bæði gangandi og hjólandi til austurs frá Hamraborg. Aukið aðgengi örflæðitækja eins og rafhlaupahjóla muni hjálpa við að stytta þá leið fyrir stóran hóp.
„Tenging milli Hamraborgar og Fífunnar verður áskorun en undan henni verður ekki komist þar sem hún er hluti af leið Borgarlínu suður til Hafnarfjarðar. Það verkefni er hægt að leysa og mun það verða megin viðfangsefni í frumdragavinnu fyrir lotu 2,“ segir einnig í niðurstöðukafla minnisblaðsins frá verkefnastofunni.
Þröngt um Digranesveginn
Sem áður segir er það dregið fram sem kostur þegar horft er á þann valkost að leggja Borgarlínu eftir Digranesvegi og Dalvegi að vagnar gætu þá stoppað við MK, en einnig er það sagt kostur að sú lega myndi mynda skýran ás eftir öllum Digraneshálsi, á Borgarholtsbraut og Digranesvegi sem skilgreindar séu sem bæjargötur í tillögu að aðalskipulagi Kópavogs.
Gallarnir eru þó þeir að á þessum slóðum eru þrengsli í götusniði og að sé nægt rými fyrir fullt sérrými, hjólastíga og gangstéttar. Þá væru framkvæmdir á Dalvegi fyrirsjáanlega flóknar, auk þess sem erfiðar beygjur séu á þessari leið sem kalli á skerðingu á lóðum. Einnig myndi ferðatími farþega Borgarlínu á milli Smáralindar og Hamraborgar líða fyrir það að fara Dalveg og Digranesveg í stað þess að halda niður í Fífu og þaðan upp í Hamraborg.