Hilmar Björnsson, fyrrverandi sjónvarpsstjóri Sýnar og dagskrárstjóri Skjás eins, hefur verið ráðinn íþróttastjóri RÚV. Hilmar tekur við stöðunni af Einari Erni Jónssyni, íþróttafréttamanni, sem hefur gegnt henni síðan í september eða síðan Kristín H. Hálfdánardóttir lét af störfum hjá RÚV. Hilmar var ráðinn án auglýsingar.
Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri Sjónvarpsins, tilkynnti starfsmönnum um ráðninguna á dögunum í tölvupósti, sem Kjarninn hefur undir höndum.
Einar Örn aftur af fullum krafti í íþróttirnar
Þar segir: „Eins og einhver ykkar hafa nú þegar komist á snoðir um þá standa fyrir dyrum breytingar hjá íþróttadeild. Nú í ágúst tekur Hilmar Björnsson við af Einari Erni Jónssyni sem íþróttastjóri. Þá mun Einar Örn á ný ná að einbeita sér af fullum krafti að íþróttafréttum og íþróttatengdri dagskrárgerð í öllum miðlum okkar - sem eru frábærar fréttir.“
Hilmar ætti að vera flestum hnútum kunnugur á RÚV, en hann hefur komið að nokkrum stórum verkefnum hjá félaginu að undanförnu. Nægir þar að nefna HM karla 2014 í fótbolta, HM karla 2015 í handbolta, þáttaröðina Handboltalið Íslands og HM kvenna 2015 í fótbolta. Hann vinnur nú að þáttaröð um karlalandslið Íslands í körfubolta, sem tekin verður til sýninga innan tíðar.
Stígur sáttur til hliðar
„Hilmar er mikill reynslubolti. Var áður sjónvarpsstjóri Sýnar, dagskrárstjóri Skjás eins og á að baki langan feril sem pródúsent og dagskrárgerðarmaður - auk þess að hafa verið þokkalegasti fótboltamaður fyrir merkilega löngu síðan. Hér er því á ferð frábær liðsstyrkur sem við bjóðum velkominn í hópinn,“ skrifar Skarphéðinn Guðmundsson í áðurnefndum tölvupósti til starfsmanna.
Í samtali við Kjarnann segir Einar Örn Jónsson að hann láti sáttur af störfum sem íþróttastjóri RÚV. Staðan hafi lent í fanginu á honum eftir að fyrri íþróttastjóri hætti störfum, og hann hafi ekki sóst eftir að gegna henni til frambúðar. Hann hafi viljað losna úr starfinu og bent RÚV á Hilmar sem heppilegan arftaka. „Ég hef lítinn metnað fyrir því að stýra, mitt fag og minn metnaður er frétta- og dagskrárgerð,“ segir Einar Örn í samtali við Kjarnann.