Nýkynnt áætlun um losun fjármagnshafta í áföngum er mikilvæg fyrir allt viðskiptalíf landsins og efnahagslífið almennt. Margt bendir til þess fjárfestar, bæði hér á landi og erlendis, telji áætlunina trúverðuga. Það er mikilvægt og mikill sigur í reynd, því töluvert er enn í það, að höftin verði losuð. Tiltrúin á að þetta sé góð áætlunin skiptir því sköpum.
Nú verður áhugavert að sjá hvort íslensk fyrirtæki, og erlend sömuleiðis, sjái tækifærin sem skapast þegar fjármagnshöftin verða ekki jafn ströng og nú er. Fyrir innlend fyrirtæki eru tækifærin einkum fólgin í því að sækja fram á erlenda markaði, með fastara land undir fótum, án þeirrar áhættu sem fylgir þessum ströngu höftum sem nú eru, og fyrir erlenda fjárfesta er það óvissan um hvernig muni ganga að fá fjárfestingu til baka sem hefur verið ráðist í.
Það er vel hugsanlegt, að samstillt átak muni þurfa til við að kynna þessar miklu breytingar vel þegar að þar að kemur, bæði hér á landi og erlendis. Því miður hefur Ísland sterka haftaímynd víða, eftir þau tæpu sjö ár sem liðin eru á frá hruni. Vonandi tekst að opna augu sem flestra fyrir því að staðan sé að breytast til batnaðar, því markmiðið ætti sannarlega að vera það, að greiða fyrir aukinni fjárfestingu og möguleikum í hagkerfinu.
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.