Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og efnahags- og fjármálaráðherra, lýsti eftir því á Alþingi í gær, að „skynsemistónn“ fengi að hljóma á Alþingi, þegar kæmi að kjaradeilum BHM og hjúkrunarfræðinga.
Það verður að segjast eins og er, að það kemur verulega á óvart að lögum sé beitt á aðgerðir hjúkrunarfræðinga - líklega stærstu kvennastétt landsins - á meðan slíkt var ekki gert gagnvart læknum. Samningarnir við lækna voru rótin að miklu launaskriði sem Seðlabanki Íslands hefur nú brugðist við með handbremsu 0,5 prósenta hækkun á vöxtum, og boðar enn meiri hækkanir.
Bjarni ætti að fara varlega í að tala um skynsemistón á Alþingi, þegar augljóst er að hann, og ríkisstjórnin sem hann á sæti í, þarf að líta í eigin barm hvað varðar kjaradeilurnar. Hjúkrunarfræðingar, og aðrar sérfræðistéttir hjá hinu opinbera, eiga það skilið að fá skýringar á því hvers vegna læknar fengu sínar hækkanir fram í samningum, á meðan lög eru sett á aðrar stéttir.
Það ætti að vera hægt að eyða öllum vafa, og stuðla að „skynsemistóni“, með því að leggja öll spilin á borðið og sjá tilboðin sem hjúkrunarfræðingar hafa fengið og aðrar sérfræðistéttir sömuleiðis.