Laun hjúkrunarfræðinga hækka um sirka 25 prósent á næstu fjórum árum, samkvæmt niðurstöðu gerðardóms sem kvað upp dóm sinn í kjaradeilum milli ríkisins, aðildarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH) í dag.
Dómurinn var birtur á netinu klukkan tvö í dag en í skjalið sem birt er vantar upplýsingar um niðurstöðu í máli hjúkrunarfræðinga. Kjarninn hefur áður sagt frá því að laun félaga BHM hækka um 7,2 prósent í ár og 5,5 prósent árið 2016, samkvæmt niðurstöðu gerðardóms.
Kjarasamningur við hjúkrunarfræðinga gildir til 31. mars 2019, eða í fjögur ár. Hann er því um tveimur árum lengri en samningurinn við BHM og um þremur mánuðum lengri en samningar sem gerðir voru á almennum vinnumarkaði í vor. Í samtali við Kjarnann segir Ólafur G. Skúlason, formaður FÍH, að niðurstaða gerðardóms kveður á um endurskoðunarákvæði sem gildi ef öðrum kjarasamningum verði sagt upp og múlbindi því ekki félagið til fjögurra ára. Auk prósentuhækkana á launum fá félagsmenn FÍH 70 þúsund króna eingreiðslu árið 2019. Fyrir meðalhjúkrunarfræðing nemi launahækkun á tímabilinu, að öllu meðtöldu, um 25 prósentum, segir Ólafur.
Spurður um hans fyrstu viðbrögð við niðurstöðu gerðardóms segist hann ágætlega sáttur, en setur þó fyrirvara á þar sem hann sé ekki búin að rýna niðurstöðuna endanlega. Kjarasamningurinn virðist þó betri en ríkið hafi boðið við samningsborðið og þetta virðist því vera jákvæð skref.