Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH) ákvað á fundi sínum í dag að fela lögmanni félagsins að höfða dómsmál gegn íslenska ríkinu vegna laga nr. 31/2015 þar sem verkfallsaðgerðir FÍH eru gerðar óheimilar og gripið var inn í kjaradeilu aðila. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá félaginu.
„Stjórn FÍH telur að lögin stangist á við réttindi þau sem félagið og félagsmenn þess njóta samkvæmt stjórnarskránni og alþjóðlegum sáttmálum sem Ísland er skuldbundið af, m.a. mannréttindasáttmála Evrópu,“ segir í yfirlýsingunni.
Tilgangur málshöfðunar verður að fá lögum nr. 31/2015 hnekkt og um leið fá viðurkennt að FÍH njóti þrátt fyrir lagasetninguna verkfallsréttar og samningsfrelsis hvað varðar hjúkrunarfræðinga í starfi hjá ríkinu, segir í yfirlýsingunni.
Félagsmenn í FÍH eru yfir tvö þúsund, og er langstærstur hluti félagsmanna konur, enda starfsstétt hjúkrunarfræðinga ein stærsta kvennastétt landsins.