Það er skárri kostur að skrifa undir þá samninga við ríkið sem Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga undirritaði í gærkvöldi en þau þvingunarúrræði sem félaginu hafi verið sett með lögum á verkfall félagsmanna þess. Þetta sagði Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, við RÚV í gærkvöldi. Hann sé þó eins sáttur og hann geti verið við samninginn og hægt sé miðað við aðstæður.
Hjúkrunarfræðingar og ríkið undirrituðu nýjan kjarasamning á ellefta tímanum í gærkvöldi. Samningarnir hljóða upp á 18,6 prósent hækkun á launum næstu þrjú árin, bæði í gegnum kjarasamninga og aukin framlög í stofnanasamninga.
Samningarnir eru til fjögurra ára, eða til 2019. Nemur hækkunin 6 prósent á þessu ári, 5,5 prósent á næsta ári og svo 3 prósent árið 2017 og 2018. Árið 2019 er svo ákvæði um 70 þúsund króna eingreiðslu. Þá mun orlofsuppbót og desemberuppbót hækka svipað og var í samningum á almennum markaði.
Ólafur sagði við RÚV að samningurinn væri svipaður og þeir sem gerðir hafa verið á almennum markaði undanfarið. Hjúkrunarfræðingar fái nú svigrúm til að kjósa um það samkomulag sem náðst hefur.