Hlín Einarsdóttir, sem hefur játað að hafa reynt að kúga fé út úr forsætisráðherra, skrifaði fjárkúgunarbréfið á tölvu, stílaði það á Sigmund Davíð Gunnlaugsson sjálfan og systir hennar prentaði það út á skrifstofu Morgunblaðsins, þar sem hún starfaði. Hlín segir systur sína hafa tekið fullan þátt í fjárkúguninni og að ástæðan fyrir henni hafi verið fjárhagsvandræði þeirra systra. Þetta kemur fram í viðtali við Hlín í DV í dag. Þar kemur einnig fram að þegar systurnar voru handteknar hafi þær ætlað að sækja tösku sem innihélt átta milljónir króna í reiðufé. Hlín segir í viðtalinu að hún hafi glímt við miklar geðraskanir á þessum tíma og að hún hafi verið lögð inn á geðdeild í kjölfar atburðanna.
Þar vill hún ekki greina frá innihaldi fjárkúgunarbréfsins og segir að sú ákvörðun hafi verið tekin í samráði við lögfræðing sinn. Hlín segir þó að fyrstu fréttir af innihaldinu, sem fréttavefurinn Vísir birti, hafi verið bókstaflega fabúleraðar. "Fréttaflutningur um að það tengdist yfirtöku á DV er uppspuni fréttamanna." Aðspurð um hvort seinni tíma fréttaflutningur af innihaldinu, að það snúist um að forsætisráðherra hafi átt að hafa beitt sér fyrir einhverskonar fjárhagslegri fyrirgreiðslu fyrir Björn Inga Hrafnsson, fyrrum sambýlismann Hlínar og aðaleiganda DV, vill hún ekki svara því fyrr en rannsókn málsins lýkur.
Segir Malín hafa tekið fullan þátt í fjárkúguninni
Hlín segir systur sína, Malín Brand, hafa komið að báðum þeim málum sem henni tengjast og hafa verið í umræðunnni undanfarnar vikur. Hitt málið snýst um meinta nauðgun sem Hlín hafi átt að hafa orðið fyrir. Sá sem hefur verið kærður fyrir nauðgunina, fyrrum samstarfsmaður hennar, hefur kært systurnar fyrir fjárkúgun en hann greiddi þeim nokkur hundruð þúsund krónur fyrir að kæra sig ekki. Maðurinn neitar sök.
Malín hefur, í viðtölum og yfirlýsingu sem hún sendi á fjölmiðla, varpað sökinni í þessum málum yfir á Hlín. Hlín segir hins vegar að systir sín hafi komið jafn mikið að báðum málunum og hún sjálf. "Það eru hrein ósannindi af hennar hálfu að ég hafi ein staðið í þessu og að hún hafi einhvern veginn dregist inn í þetta út af mér. Það segir sig bara sjálft þegar hún kemur með mér í Hafnarfjörð að sækja töskuna,“ en í fjárkúgunarbréfinu báðu þær um að peningarnir sem þær vildu að forsætisráðherra greiddi yrðu afhentir í Hafnarfirði.
Hugmyndin að fjárkúguninni hafi kviknað eina kvöldstund þegar Malín gisti hjá Hlín. "Malín átti í miklum fjárhagserfiðleikum og ég líka. Þessi hugmynd kom út frá þessari stöðu sem við vorum í. Malín gisti hjá mér eitt kvöldið og þessi hugmynd kviknaði."
Skrifað á tölvu og prentað út í Hádegismóum
Hlín segir margt í fréttaflutningi af bréfinu einnig vera rangt. Það hafi ekki verið búið til úr útklipptum bókstöfum úr gömlum fréttablöðum heldur verið skrifað í tölvu. Bréfið hafi ekki verið stílað á eiginkonu Sigmundar Davíðs heldur hann sjálfan þó að nafn eiginkonu hans hafi verið ritað á umslagið sem bréfið var sent í og það var prentað út á skrifstofum Morgunblaðsins þar sem Malín starfaði. Hlín segir að systurnar hafi skrifað bréfið í sameiningu, keyptu frímerki og umslag og sent bréfið. "Systir mín tók þátt í þessu öllu og því var mér brugðið þegar hún kom fram í fjölmiðlum og skellti skuldinni á mig og minn sjúkdóm". Systurnar hafa ekki talað saman síðan þær voru handteknar í hrauninu í Hafnarfirði þann 29. maí.