Íslenskir hlutabréfasjóðir fyrir almenning eru flestir dýrari fyrir viðskiptavini heldur en sambærilegir verðbréfasjóðir í Noregi. Upphafskostnaður við að kaupa sig inn í íslensku sjóðina er hár í samanburði, vegna hárrar þóknunar sem sjóðirnir rukka. Heildarkostnaður á fyrsta árinu getur verið hátt í fjögur prósent af fjárfestingunni.
Þetta sýnir samantekt Kjarnans á kostnaði nokkurra algengra hlutabréfasjóða sem reknir eru af sjóðstýringarfélögum Íslandsbanka, Arion banka, Landsbankans, MP Straumi auk sjóði Íslenskra verðbréfa. Öll félögin bjóða almenningi að fjárfesta í hlutabréfasjóðum sem fjárfesta á innlendum hlutabréfamarkaði.
Kostar að kaupa
Í flestum tilvikum er tekin tveggja prósenta þóknun við kaup á hlutdeildarskírteinum í sjóðunum. Það þýðir að sá sem vill kaupa hlutdeildarskírteini í hlutabréfasjóði fyrir 500 þúsund krónur greiðir tíu þúsund krónur í þóknun. Kostnaður við að fjárfesta í sjóði fyrir fimm milljónir króna er hundrað þúsund krónur.
Auk þess að taka tveggja prósenta þóknun við kaup á hlutdeildarskírteinum, þá er algengur umsýslukostnaður um 1,7 prósent á ári. Það er þó misjafnt milli íslensku sjóðanna, frá því að vera 0,5 prósent hjá kauphallarsjóði Landsbréfa, upp í 1,75 prósent hjá öðrum hlutabréfasjóði Landsbréfa.
Heildarkostnaður þess sem fjárfestir í hlutdeildarskírteinum í innlendum hlutabréfasjóði getur þannig numið allt að 3,7 prósentum af fjárfestingunni. Það er töluvert hærra en í Noregi, þar sem algengt er að þóknun við kaup séu engin en árlegur umsýslukostnaður um 1,5 til tvö prósent. Heildarkostnaður á fyrsta árinu er þar mun lægri en hérlendis.
Sjóðirnir sem hér eru til umfjöllunar eru ætlaðir almenningi og lágmarksfjárfesting þarf samkvæmt reglum flestra sjóðanna aðeins að vera nokkur þúsund krónur. Í töflunni hér að neðan má sjá kostnað við kaup og árlegan umsýslukostnað hjá nokkrum innlendum hlutabréfasjóðum auk sambærilegra sjóða í Noregi til samanburðar. Athugið að taflan er ekki tæmandi.
Hlutabréfasjóðir, íslensk hlutabréf* | |||
Nafn á sjóði | Þóknun við kaup** | Árlegur umsýslukostnaður | Samtals kostnaður á ári 1 |
Íslandssjóðir: Úrvalsvísitala - Sjóður 6 | 2,00% | 0,80% | 2,80% |
Íslandssjóðir: Hlutabréfasjóðurinn | 2,00% | 1,70% | 3,70% |
Stefnir: ÍS-15 | 2,00% | 1,71% | 3,71% |
Landsbréf: Úrvalsbréf | 2,00% | 1,65% | 3,65% |
Landsbréf: Öndvegisbréf | 2,00% | 1,75% | 3,75% |
Landsbréf: LEQ | 0,00% | 0,50% | 0,50% |
Júpiter: Innlend hlutabréf | 1,50% | 1,70% | 3,20% |
Íslensk Verðbréf: Hlutabréfasafn ÍV | 2,00% | 1,50% | 3,50% |
GAMMA: Equity | 0,9% | 1,5% | 2,4% |
Meðaltal | 3,10% | ||
*íslenskir hlutabréfasjóðir með lága lágmarksfjárhæð við kaup **Eða gengismunur. | |||
Hlutabréfasjóðir, nokkrir samanburðarsjóðir í Noregi** | |||
Nafn á sjóði | Þóknun við kaup | Árlegur umsýslukostnaður | Samtals kostnaður á ári 1 |
Storebrand: Verdi | 0,0% | 2,00% | 2,00% |
Storebrand: Norge | 0,0% | 1,50% | 1,50% |
Nordea: Norge Verdi | 1,1% | 1,50% | 2,55% |
Nordea: Vekst | 1,1% | 2,00% | 3,05% |
DNB: Norge | 0,0% | 1,80% | 1,80% |
Meðaltal | 2,18% | ||
**Norskir hlutabréfasjóðir með lága lágmarksfjárhæð við kaup |
Starfsmennirnir með yfir 1.300 þúsund á mánuði
Sjóðstýringarfélögin skila eigendum sínum, sem eru viðskiptabankarnir nema í tilviki Íslenskra verðbréfa, miklum tekjum auk þess sem þau eru rekin með hundruð milljóna hagnaði. Þannig nam hagnaður Landsbréfa, sjóðstýringafélags Landsbréfa, um 190 milljónum í fyrra. Hagnaður af rekstri Íslandssjóða, félags Íslandsbanka, nam um 230 milljónum árið 2014. Stefnir, félag Arion banka, skilaði 867 milljónum króna í hagnað. Hagnaður Júpíters, sjóðstýringarfélag MP Straums, var 29 milljónir króna.
Auk hlutabréfasjóða reka sjóðirnir skuldabréfasjóði og fagfjárfestasjóði. Umsvif þessara félaga og sjóða í þeirra rekstri hafa aukist mikið á undanförnum árum, samhliða meira lífi á innlendum verðbréfamarkaði eftir hrun.
Greint var frá því í júlí síðastliðnum að starfsmenn þessara rekstrarfélaga verðbréfasjóða fá almennt að meðaltali um 1.300 þúsund til 1.600 þúsund krónur í laun á mánuði. Samkvæmt umfjöllun DV, sem byggði á ársreikningum félaganna, voru hæstu launin hjá Stefni og Júípter. Meðalmánaðarlaun starfsmanna þessara félaga námu liðlega 1,6 milljónum króna á síðasta ári. Launin taka ekki tillit til mögulegra bónusa sem starfsmenn sumra félaganna kunna að hafa fengið.
Meðallaun starfsmanna Íslandssjóða, sjóðatýringarfélags Íslandsbanka, námu um 1.280 þúsund krónum á mánuði í fyrra en meðalfjöldi starfsmanna var 16,6. Landsbréf, félag Landsbankans, greiddi 19 starfsmönnum að meðaltali sömu upphæð. Hjá Stefni voru meðallaunin 1.570 þúsund krónur og meðalfjöldi starfsmanna 22. Júpíter greiddi starfsmönnum sínum, sem voru að meðaltali 4,5 talsins í fyrra, 1.610 þúsund krónur á mánuði.