Eignir hlutabréfasjóða í rekstri banka og annarra fjármálafyrirtækja námu alls um 105,7 milljörðum króna í lok september 2015. Á einu ári hafa eignir þeirra aukist um 32,9 milljarða króna og nema nú meiru en þær gerðu í júlí 2007, þegar þær stóðu hæst fyrir hrun. Taka skal fram að um er að ræða stærðir á verðlagi hvers árs.
Þetta sýna nýjar hagtölur Seðlabanka Íslands um verðbréfa- og fjárfestingasjóða og lánafyrirtæki. Línuritið hér að neðan sýnir eignir hlutabréfasjóða frá ársbyrjun 2006. Eins og sjá má þá þurrkuðust eignir þeirra nánast út í kjölfar hrunsins 2008 en hafa vaxið verulega, ekki síst á síðustu rúmu 12 mánuðum, samhliða miklum hækkunum á innlendum hlutabréfamarkaði. Á vef Keldunnar má jafnframt sjá yfirlit yfir ávöxtun hlutabréfasjóða, sem nemur í sumum tilvikum á bilinu 40 til 50 prósentum á síðustu tólf mánuðum.
Eignir verðbréfasjóða alls námu um 200 milljörðum króna í september síðastliðnum. Auk mikils vaxtar hlutabréfasjóða, sem juku eignastöðu sína um 6,6 milljarða milli ágúst og september, þá hafa peningamarkaðssjóðir einnig stækkað mikið. Á síðustu tólf mánuðum hafa eignir peningamarkaðssjóða, þ.e. skuldabréfasjóða, aukist um 39,4 milljarða króna. Eignir peningamarkaðssjóða í lok september 2015 námu um 77 milljörðum króna, samkvæmt tölum Seðlabankans.
Í lok september voru starfandi 159 sjóðir, þar af 51 verðbréfasjóður, 52 fjárfestingasjóðir og 56 fjárfestingasjóðir. Níu af þessum sjóðum voru í slitaferli en aðrir starfandi.