Stjórnir MP banka og Straums fjárfestingabanka hafa boðað til hluthafafunda hjá félögunum þann 22. júní næstkomandi. Þar verða lagðar fram tillögur að samruna MP banka og Straums sem byggir á samrunaáætlun sem samþykkt hefur verið og undirrituð af stjórnum beggja félaga. Bankarnir tilkynntu fjölmiðlum um boðaðan hluthafafund í dag. Sameinaður banki mun starfa undir nýju nafni.
„Vinna við undirbúning samrunans hefur gengið vel og samkvæmt áætlunum. Stefnt er að því að nýr, sameinaður banki hefji starfsemi sína með haustinu undir nýju nafni. Sameinaður banki verður til húsa í Borgartúni 25. Samruninn er háður samþykki Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlitsins,“ segir í tilkynningu.
Samkvæmt samrunaáætluninni verður skipti hlutafjár í sameinaða félaginu þannig að núverandi hluthafar MP banka munu eiga 58,66 prósent af virku hlutafé en núverandi hluthafar Straums fjárfestingabanka munu eignast 41,34 prósent af virku hlutafé.