Viðskiptabann Rússa, sem nú teygir anga sína til Íslands, er orðið að miklu hitamáli á hinu pólitíska sviði. Það kemur ekki mikið á óvart, þar sem miklir viðskiptahagsmunir eru í húfi, eða sem nema um 30 milljörðum á ári, og eru nær öllu leyti tengdir stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins.
Eins og fram kom í gær, á þessum vettvangi, þá yrði það fráleit ráðstöfum á peningum ríkissjóðs ef þeir yrði notaðir til þess að bæta sjávarútvegnum upp tapið. Sveiflur á mörkuðum, og aðrir áhættuþættir, hafa áður gert sjávarútvegnum lífið leitt og í einkaréttarlegum viðskiptum verða hluthafarnir að eiga við það.
En það verður ekki lítið gert úr því að þetta er mikið áfall, og mörg störf í landi gætu horfið vegna þessa banns, einkum ef það verður lengi í gildi.
Á undanförnum árum hefur sala á sjávarafurðum til Rússlands og Austur-Evrópa lagt grunninn að bestu uppgjörum sem sést hafa í íslenskum sjávarútvegi nokkru sinni. Hluthafar fyrirtækjanna hafa hagnast verulega þessu góðæri, og hafa arðgreiðslur numið milljörðum á hverju ári, Rekstur Síldarvinnslunnar er gott dæmi um þetta góða gengi. Undanfarin fimm ár hefur félagið hagnast um milljarða á hverju ári, líkt og fleiri fyrirtæki.
Í ljósi hinnar erfiðu stöðu sem uppi er ættu hluthafar fyrirtækjanna vel að geta stutt við félögin í gegnum erfitt árferði og einnig farið varlega í að segja upp starfsfólki. Hinn 19. ágúst næstkomandi heldur Síldarvinnslan aðalfund sinn á Hótel Egilsbúð, Neskaupstað. Liður númer 3 á dagskrá fundarins er ákvörðun um greiðslu arðs vegna rekstursins í fyrra. Spennandi verður að sjá hvort hluthafarnir ákveða að taka pening úr félaginu, eða hvort þeir ákveða að halda þeim eftir í félaginu í ljósi þeirra miklu erfiðleika sem innflutningsbann Rússa getur skapað fyrir rekstur félagsins.