Innflutningsbann Rússa er bylmingshögg fyrir íslenskan sjávarútveg og virðist koma íslenskum stjórnvöldum gjörsamlega í opna skjöldu, í það var engin áætlun til um hvernig ætti að bregðast við ef markaðir í Rússlandi myndu lokast. Þá fullyrti Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, að stjórnvöld hafi verið með rangar tölur og að hagsmunirnir hafi verið vanmetnir um næstum tíu milljarða á ársgrundvelli.
Það sem nú reynir á er styrkur hluthafa sjávarútsvegsfyrirtækjanna. Þeir hafa hagnast vel á undanförnum árum og tekið milljarða úr fyrirtækjunum í formi arðgreiðslna, á grunni mikillar velgengni. Upphæðirnar nema í mörgum tilvikum margföldum launum allra starfsmanna í landi. Það væri samfélagslega ábyrgt hjá hluthöfunum að standa með starfsfólki í þessari óvissu sem upp er komin, sem engin getur gert lítið úr. Til dæmis með því að grípa ekki strax til hagræðingaraðgerða heldur reyna eftir fremsta megni að opna dyr inn á markaði og halda fólki í vinnu meðan staðan er að skýrast. Þá væri einnig ábyrgt hjá hluthöfunum að greiða ekki arð úr félögunum meðan þessi staða er uppi. Aðalfundur Síldarvinnslunnar, sem hefur notið góðs af miklum og vaxandi viðskiptum við Rússlandsmarkað á undanförnum árum, fer fram á morgun og verður spennandi að sjá hvernig hluthafar munu greina stöðuna og hvort þeir telji að skynsamlegt sé að greiða mikinn arð úr félaginu við þessar aðstæður.