Sveitafélagið Hornafjörður var sett undir lögregluumdæmi Austurlands vegna þess að sveitastjórnar- og lögreglumenn þar höfðu áhyggjur af því að rekstargrundvöllur lögreglunnar þar væri veikur. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi dómsmálaráðherra, tók ákvörðunina og tilkynnt var um hana á sama tíma og hann lét af störfum sem dómsmálaráðherra.Með henni færðust lögreglumál Hornafjarðar, og það fjármagn sem þeim fylgir, yfir í kjördæmi Sigmundar þvert á vilja Hornfirðinga.
Að sögn Jóhannesar Þór Skúlasonar, aðstoðarmanns Sigmundar Davíðs hafði rekstrargrundvöllur lögreglunnar á Austurlandi ekki „verið nógu sterkur. Að mati heimamanna skipti það miklu máli að það samstarf sem hefur verið milli lögregluembætta á Höfn og á Austurlandi sé skoðað nánar og rekstrarforsendurnar endurmetnar“. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Líkt og Kjarninn greindi frá á föstudag var það síðasta verk Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, sem dómsmálaráðherra var að setja nýja reglugerð um lögregluumdæmi lögreglustjóra, þar sem sveitarfélagið Hornafjörður telst nú til umdæmis lögreglustjórans á Austurlandi. Með ákvörðun sinni færði þáverandi dómsmálaráðherra lögregluna á Höfn úr Suðurkjördæmi yfir í Norðausturkjördæmi, sem vill svo til að er hans kjördæmi.
Lögregluyfirvöldum og sveitarstjórnarmönnum barst tilkynning um reglugerðina í tölvupósti klukkan rétt rúmlega eitt á fimmtudag, en þá var nýhafinn ríkisráðsfundur á Bessastöðum þar sem Ólöf Nordal tók formlega við sem nýr innanríkisráðherra
Lögregluyfirvöldum og sveitarstjórnarmönnum barst tilkynning um reglugerðina í tölvupósti klukkan rétt rúmlega eitt á fimmtudag, en þá var nýhafinn ríkisráðsfundur á Bessastöðum þar sem Ólöf Nordal tók formlega við sem nýr innanríkisráðherra. Samhliða því færðust dómsmálin frá forsætisráðuneytinu aftur yfir í innanríkisráðuneytið.
Mikil óánægja með ákvörðunina
Sveitarstjórnarmenn á Hornafirði eru æfir vegna reglugerðarinnar, og Björn Ingi Jónsson, bæjarstjóri á Hornarfirði, sendi þingmönnum og nýskipuðum dómsmálaráðherra harðort bréf vegna málsins.Í niðurlagi bréfsins, sem Kjarninn hefur undir höndum, segir:„Þess vegna spyr ég HVAÐ ER AÐ GERAST HJÁ YKKUR?! Ég óska eftir því að þið beitið ykkur í því að þessi ákvörðun verði endurskoðuð og að unnið verð áfram í þá átt sem hér hefur verið lýst.“
Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjarnefndar Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði við fjölmiðla um helgina að það ætti að draga reglugerð Sigmundar til baka. Ólöf Nordal, nýr innanríkisráðherra, sagði í fréttum Stöðvar 2 um helgina að hún ætli að fara yfir málið.
Í frétt Fréttablaðsins í morgun kom fram að ekki hefði náðst í Sigmund Davíð vegna hennar, þar sem hann var staddur erlendis. Sigmundur Davíð hefur ekki tjáð sig um málið frá því að það komst í hámæli á föstudag.