Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa sameinast um stefnu og skipulag svæðisins til ársins 2040. Hryggjarstykkið í stefnunni er að koma á fót nýju léttlestar- eða hraðvagnakerfi sem á að verða raunhæfur valkostur í samgöngum og á að gegna lykilhlutverki við að breyta ferðavenjum. Þetta kerfi er nefnt Borgarlínan og mun tengja kjarna sveitarfélaganna.
Allar sveitarstjórnir, í Garðabæ, Hafnarfirði, Kjósarhreppi, Kópavogi, Mosfellsbæ, Reykjavík og Seltjarnarnesi, hafa samþykkt þetta nýja svæðisskipulag og Skipulagsstofnun hefur staðfest það. Samkvæmt stefnunni, sem heitir Höfuðborgarsvæðið 2040, munu sveitarfélögin hafa með sér náið samstarf auk þess sem stefnan er sameiginleg stefna í skipulagsmálum og um hagkvæman vöxt svæðsins næstu 25 árin. „Enda er höfuðborgarsvæðið eitt búsetusvæði, einn atvinnu- og húsnæðismarkaður með sameiginleg grunnkerfi, útivistarsvæði, auðlindir og náttúru.“
Vöxtur höfuðborgarsvæðisins hefur verið mikill síðustu áratugi og byggðin hefur dreifst um óvenju stórt svæði, segir í stefnu sveitarfélaganna. „Fjölgun íbúa mun halda áfram og árið 2040 verða þeir farnir að nálgast 300.000, gangi spár eftir. Með auknum vexti blasa við flóknar áskoranir, fyrirséðar og ófyrirséðar, sem íbúar svæðisins standa frammi fyrir.“ Lykilatriði sé að vöxturinn sem er fyrirséður verði hagkvæmur og gangi ekki á umhverfisgæði þeirra sem búa fyrir á svæðinu. „Það er því nauðsynlegt að fyrirsjáanlegri fólksfjölgun verði mætt án þess að bílaumferð aukist í sama hlutfalli og án þess að óbyggt land verði brotið í sama mæli og gert var síðustu áratugi.“
Því verður Borgarlínunni hrundið í framkvæmd og vinna við það á að hefjast strax á næstunni í samvinnu við Vegagerðina.