Höfuðstöðvar Fiskistofu munu flytjast til Akureyrar um næstu áramót, að því er fram kemur í tilkynningu frá atvinnuvegaráðuneytinu í dag. Er flutningur Fiskistofu sagður í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar um að stuðla beri að fjölbreyttum atvinnutækifærum um allt land, m.a. með dreifingu opinberra starfa. Sagt er að á síðustu árum hafi opinberum störfum fjölgað á höfuðborgarsvæðinu en fækkað á landsbyggðinni.
„Með breytingum á lögum um Stjórnarráð Íslands sem samþykktar voru á liðnu þingi hefur verið lögfest heimild fyrir ráðherra til að taka ákvörðun sem þessa. en þar segir: „Ráðherra kveður á um aðsetur stofnunar sem undir hann heyrir, nema á annan veg sé mælt í lögum,“ segir ennfremur.
Fiskistofa er í dag staðsett í Hafnarfirði. Í tilkynningunni kemur fram að Fiskistofustjóri muni flytjast til Akureyrar og starfa þar ásamt starfsmönnum sem þar séu fyrir, öðrum sem óski eftir flutningi til Akureyrar og nýjum starfsmönnum sem verði ráðnir. „Starfsmenn Fiskistofu sem nú starfa í Hafnarfirði munu hafa val um starfsstöð á Akureyri eða í Hafnarfirði.“
Starfsmenn þurfa ekki að flytja
Upphaflega ætlaði Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að flytja mest alla starfsemi Fiskistofu úr Hafnarfirði til Akureyrar. Því mótmæltu starfsmenn Fiskistofu harðlega. Í maí síðastliðnum var greint frá því að ráðherra hafi fallið frá hugmyndum um að starfsmenn þyrftu að flytjast til Akureyra. Sigurður Ingi tilkynnti starfsmönnum þetta með bréfi í maímánuði. Það var skrifað í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis þar sem gerðar voru athugasemdir við undirbúning áformanna og samskipti ráðuneytisins við stofnunina og starfsfólk hennar. Fram kom í bréfi Sigurðar Inga til starfsfólks að í stað þess að flytja starfsfólkið til Akureyrar verður starfsmannavelta látin ráða, þannig að Fiskistofustjóri verður á Akureyri auk þeirra starfsmanna stofnunarinnar sem fyrir eru þar og þeim sem óska eftir því að flytjast norður.