Herferðin Höldum fókus sem framleiðslufyrirtækið Tjarnargatan vann með Símanum og Samgöngustofu hefur verið endurgerð og uppfærð frá grunni fyrir Noregsmarkað. Verkefnið fer í loftið þar í landi klukkan tíu að íslenskum tíma á morgun, þriðjudag, undir formerkjum Trygg Trafikk og tryggingafélaginu Gjensidige.
Herferðin vakti mikla athygli á Íslandi sumarið 2013 en í henni eru notendur beðnir um að auðkenna sig með Facebook og gefa upp símanúmer sitt. „Með því móti varð til einstök upplifun sem ekki hafði áður sést hér á landi og sló vægast sagt í gegn hjá íslenskum netverjum,“ segir í fréttatilkynningu um útrás herferðarinnar til Noregs.
„Inn á vefsvæðið sóttu yfir 140.000 notendur og var myndbandið spilað hartnær 250.000 sinnum. Nálægt 88.000 íslenskir farsímanotendur gáfu upp símanúmer sitt og upplifðu því frá fyrstu hendi gagnvirkni, sem þykir sérstök á heimsvísu. Þar sem sögupersóna sendir áhorfanda SMS og hringir svo að lokum í hann.
Samkvæmt því sem best er vitað er þetta mesta „víral” dreifing á íslenskri auglýsingu sem vitað er til. Ástæða þess er að yfir 35.500 Íslendingar fundu sig knúna til að leggja þessu brýna málefni lið og deildu því áfram á facebook og fór því verkefnið ekki framhjá mörgum.
Herferðin Höldum fókus vann til fjölda verðlauna á Íslandi og má þar helst nefna Íslensku auglýsingaverðlaunin, íslensku vefverðlaunin og Nexpo verðlaunin árið 2013.“