Forysta verkalýðshreyfingarinnar, og opinberra stétta sem vinna að gerð nýrra kjarasamninga, horfir ekki síst til samninga sem íslensk stjórnvöld gerðu við lækna. Samkvæmt þeim samningum hækkuðu laun lækna um meira en 20 prósent. Ólafur Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, staðfesti í samtali við Kjarnann að það væri ekkert leyndarmál, að vinnumarkaðurinn horfði til samningsins við lækna þegar þegar það kæmi að komandi kjarasamningum. Markmið hjúkrunarfræðinga væri til að mynda að ná fram 20 til 25 prósent hækkun á launum, og „leiðrétta“ launin til samræmis við aðrar háskólamenntaðar stéttir hjá hinu opinbera. Um 45 samningar eru komnir á endurnýjunartíma og hafa markmið aðildarfélaga verið að birtast á síðustu vikum.
Í kröfugerð Starfsgreinasambandsins (SGS), sem er með sextán aðildarfélög innan sinna vébanda og tólf þúsund félagsmenn, kemur meðal annars fram krafa um að lægstu laun verði hækkuð úr 214 þúsund í 300 þúsund, og að laun í greinum þar sem rekstur hefur verið árangursríkur, meðal annars í gjaldeyrisskapandi greinum eins og þar segir, hækki verulega. Er í þessu sambandi meðal annars horft til hækkana sem háskólamenntaðar stéttir hjá hinu opinbera hafa fengið.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sagði í grein í Morgunblaðinu í morgun að kjarasamningar við lækna og framhaldsskólakennara geti ekki gefið fordæmi fyrir þá kjarasamninga sem framundan væru á vinnumarkaði. Samningarnir við lækna og framhaldsskólakennara séu til lengri tíma, og að í þeim felist einnig verulegar breytingar á vinnufyrirkomulagi og launauppbyggingu. Þegar að kæmi að samningum á almennum vinnumarkaði væri um að ræða skammtímasamninga.
Þá kemur fram í grein forsætisráðherra að góður árangur hafi náðst að undanförnu þegar kæmi að uppbyggingu kaupmáttar launa, en hann mældist hærri í nóvember síðastliðnum en nokkru sinni áður.