Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að viðbrögð flokks hans við mosku-ummælum Sveinbjargar Birnu Sveinbjargardóttur, oddvita hans í Reykjavík, fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar hefðu mátt vera sterkari. Þetta kom fram í Vikulokunum á Rás 1 fyrr í dag.
Framsóknarflokkurinn var vændur um kynþáttarhyggju og popúlisma eftir að ummælin féllu. Fylgi hans jókst í kjölfarið og skilaði flokknum tveimur borgarstjórnarfulltrúum.
Í Vikulokunum voru ummæli Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um múslima á Íslandi til umræðu. Hildur Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, sagðist vonast til þess að ummælin hafi fallið vegna vanþekkingar frekar en að þau séu „popúlískur áróður“. „Það er hins vegar ekkert í boði, það er engin afsökun. Hann er fulltrúi á löggjafarþinginu okkar. Hans orð vega þyngra en annarra,“ sagði Hildur. Hún sagði þetta hafa verið óboðleg ummæli en að hún sé stolt af viðbrögðum Sjálfstæðismanna í kjölfarið., sérstaklega þegar þau eru borin saman við umræðuna í kringum moskuummæli oddvita Framsóknarmanna í Reykjavík fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar.
Höskuldur Þórhallsson tók undir gagnrýni á ummæli Ásmundar og sagðist sammála því að flokkur hans hefði ekki brugðist við mosku-ummælunum með afgerandi hætti. „Viðbrögðin hefðu mátt vera sterkari á sínum tíma,“ sagði Höskuldur. Eftir á að hyggja hefði flokkurinn átt að bregðast fljótar og ákveðnar við. Hann væri hins vegar þeirrar skoðunar að „Framsóknarflokkurinn muni berjast gegn öllum hugmyndum um mismunun“.