„Einhverjar líkur kunna vera á því að tveir stórir bankar falli inn í eignasafn Seðlabankans á næstu árum. Getur verið að skipan þriggja stjóra eigi að tryggja að þeir falli í réttar hendur? Sporin hræða. Fyrir tíu árum var það meira að segja einn pólitískt skipaður seðlabankastjóri sem komst yfir viðskiptabanka með mönnum sem nú sitja í fangelsi fyrir afbrot í rekstri þess banka.“ Þetta segja hagfræðingarnir Guðrún Johnsen og Þórólfur Matthíasson í grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag þar sem þeir lýsa yfir áhyggjum sínum á fyrirhugum breytingum á lögum um Seðlabanka Íslands. Hugmyndir eru uppi um að breyta lögunum með þeim hætti að seðlabankastjórarnir verði þrír í stað eins, líkt og var fyrir hrun. Bankarnir tveir sem um ræðir eru Íslandsbanki og Arion banki, en sá möguleiki hefur verið nefndur að þeir renni inn í Eignasafn Seðlabanka Íslands við uppgjör slitabúa Glitnis og Kaupþings.
Guðrún og Þórólfur hafa áhyggjur af því að skipan seðlabankastjóranna samkvæmt nýja fyrirkomulaginu verði pólitísk og það verði líkast til sitjandi fjármálaráðherra í samsteypuríkisstjórn hverju sinni sem muni skipa í stöðurnar. Áður en sama fyrirkomulag verður tekið upp aftur sé mikilvægt að núverandi stjórnvöld geri upp við fortíðina til þess að þeim sé treystandi til þess að breyta öðruvísi í þetta sinn en síðast þegar pólitískir seðlabankastjórar sátu í Seðlabankanum. „Með því að hafa þrjá pólitíska seðlabankastjóra er vegið að sjálfstæði stofnunarinnar. Ólíklegt er að peningastefnunefnd þar sem þessir þrír eru í meirihluta grípi til aðhaldssamra aðgerða í aðdraganda kosninga sem þá hefur í för með sér að erfiðara verður að halda verðbólguvæntingum niðri með þekktum afleið- ingum gagnvart vaxtastigi og nafnlaunaþróun.“
Ef tillögurnar verði að veruleika sé hætta á að slagsíða verði á peningastefnunefnd Seðlabankans þar sem í meirihluta yrðu þrír pólitískt skipaðir seðlabankastjórar, en í dag sitja fimm í peningastefnunefnd. „Litið væri á hvern og einn bankastjóranna sem fulltrúa ráðandi stjórnmálaflokks. Síðustu árin er sjaldgæft að nefndin hafi klofnað á milli innri og ytri aðila – raunveruleg skoðanaskipti og rökræður eiga sér stað án þess að innri aðilar séu alls ráðandi. Erfitt er að sjá að sterkir, faglegir, ytri nefndarmenn, fengjust til að sitja í nefnd sem bæri svo sterkan pólitískan keim.“
Guðrún og Þórólfur segja að sporin hræði þegar kemur að pólitískri íhlutun í Seðlabanka Íslands. „Hættur úr fortíðinni eru ógreinileg skil á milli ráðandi fyrirtækja og atvinnugreina, stjórnmálaflokka og ríkisstjórnar og embættismanna. Það er afar mikilvægt – varðar í raun þjóðaröryggi – að embættismannastéttin sé óháð stjórnmálum og efnahagslegum hagsmunum. Stjórn Seðlabankans er þegar fjölskipuð, því seðlabankastjóri hefur aðeins eitt atkvæði af fimm í mikilvægustu ákvörð- unum bankans, vaxtaákvörðunum, í peningastefnunefnd. Eins og sakir standa reynir helst á „einræði“ seðlabankastjórans í málefnum um afnám hafta, sem þó þarf að bera undir fjármálaráðherra, og í málefnum er varða sölu eigna úr eignasafni Seðlabankans.“