Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri bankans í Lúxemborg og Skúli Þorvaldsson fjárfestir voru í dag sakfelldir í héraðsdómi Reykjavíkur í Marple-málinu svokallaða. Hreiðar Már og Skúli hlutu sex mánaða dóma en Magnús var dæmdur í 18 mánaða fangelsi. Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri bankans, var sýknuð af ákæru í málinu. RÚV greinir frá.
Hreiðar Már og Guðný Arna voru ákærð fyrir fjárdrátt og umboðssvik. Magnús var ákærður fyrir hlutdeild í fjárdrætti og umboðssvikum og Skúli var ákærður fyrir hylmingu. Málið, eins og embætti sérstaks saksóknara lagði það upp, snýst um tilfærslu á um átta milljörðum króna úr sjóðum Kaupþings til félagsins Marple Holding, í eigu Skúla, án þess að lögmætar viðskiptalegar ákvarðanir lægju þar að baki.
Alls hefur embætti sérstaks saksóknara ákært þá Hreiðar Má og Magnús fjórum sinnum. Hreiðar Már hefur nú þrívegis verið dæmdur sekur í málum gegn honum, þótt tvö þeirra mála eigi væntanlega enn eftir að fara fyrir Hæstarétt. Magnús hlaut dóm í Al Thani-málinu en var sýknaður í stóra markaðsmisnotkunarmálinu tengt Kaupþingi fyrr á þessu ári. Báðir afplána þeir nú langa fangelsisdóma á Kvíabryggju.
Fóru fram á að meðdómari myndi víkja
Fyrr í þessari viku fór Hreiðar Már fram á að Ásgeir Brynjar Torfason, meðdómari í málinu, meðal annars á þeim forsendum að hann situr í stjórn samtakanna Gagnsæis, sem hafa það yfirlýsta markmið að berjast gegn spillingu í öllum grunnstoðum samfélagsins. Auk þess voru ýmis ummæli Ásgeirs Brynjars í þjóðmálaumræðu undanfarinna ára sem og greinarskrif hans sögð draga úr hlutleysi hans sem dómara. Kjarninn greindi frá þessu á mánudag.
Vísir greindi einnig frá málinu og því að meðal þess sem Hreiðar notaði sem rökstuðning eru ummæli Ásgeirs í myndbandsbloggi hjá Teiti Atlasyni, nafnlaus grein á bloggi Egils Helgasonar sem Hreiðar telur að Ásgeir hafi skrifað og færslur á Facebook sem hann hefur látið sér líka við.
Þeirri kröfu var hafnað.