Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, hafa farið fram á að Al Thani-málið verði endurupptekið. Ólafur Ólafsson hefur einnig farið fram á það. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag. Hreiðar afplánar nú fimm og hálfs árs dóm í málinu en Sigurður fjögurra ára dóm.
Endurupptökubeiðni Hreiðars og Sigurðar byggist annars vegar á því að Árni Kolbeinsson, einn dómenda málsins í Hæstarétti, hafi verið vanhæfur og hins vegar á því að sönnunargögn hafi verið metin rangt. Viðskiptablaðið hefur endurupptökubeiðnina undir höndum.
Árni Kolbeinsson var skipaður varadómari í málinu að því er fram kemur þar. Málflytjendum hafi verið tilkynnt í desember í fyrra að eiginkona hans, Sigríður Thorlacius, hafi setið í stjórn Fjármálaeftirlitsins fram í janúar 2009. Fjármálaeftirlitið var með Al Thani-málið til rannsóknar á þeim tíma. Þá var óskað eftir því að málflytjendur gerðu athugasemdir við setu Árna ef þeir hefðu þær, en svo var ekki gert.
Nú segja Hreiðar og Sigurður hins vegar að eftir að dómur var genginn í malinu hafi komið fram upplýsingar um að sonur Árna hefði starfað sem forstöðumaður lögfræðisviðs slitastjórnar Kaupþings frá 2008 og 2013. Þetta hafi verið nýjar upplýsingar sem ekki hafi verið upplýst um. Hagsmunir slitastjórnar Kaupþings af sakfellingu þeirra í málinu hafi verið augljósir.
„Svo virðist sem sonur dómarans hafi sinnt störfum fyrir slitastjórn Kaupþings þegar dómarinn tók sæti í málinu og dæmdi það. Líklegt er að sonurinn hafi tekið þátt í ákvörðunum um að stefna Hreiðari Má og Ólafi til greiðslu skaðabóta en sú ákvörðun hefur verið byggð á sömu atvikum og fjallað var um í hæstaréttarmálinu. Hafði hann, ásamt slitastjórn Kaupþings, því hagsmuna að gæta af niðurstöðu málsins. Kunna þeir hagsmunir að vera fjárhagslegir og umtalsverðir í ljósi ofangreinds um mögulegar kaupaukagreiðslur til hans,“ segir í endurupptökubeiðninni. Þetta sé til þess fallið að vekja upp réttmætar efasemdir um óhlutdrægni Árna.
Taka undir Óla-ruglinginn
Þá taka Hreiðar og Sigurður undir það sem Ólafur Ólafsson hefur sagt og heldur fram í sinni endurupptökubeiðni, sem er að Hæstiréttur hafi ruglast á Ólafi og Ólafi Arinbirni Sigurðssyni við skoðun á málsgögnum. Þeir segja að þessi „mistök Hæstaréttar“ hafi haft veruleg áhrif við ákvörðun refsingar.
Björn Þorvaldsson, sem sótti Al Thani-málið fyrir hönd embættis sérstaks saksóknara, hefur hins vegar sagt það misskilning að Ólafur hafi verið dæmdur í fangelsi á grundvelli misskilnings.
Það sé alveg skýrt að í því símtali þar sem rætt hafi verið um „Óla“ sem Hæstiréttur fjallar um sé verið að ræða Ólaf Ólafsson, ekki lögfræðing með sama fornafni sem sé sérfræðingur í kauphallarviðskiptum. „Bæði í ljósi þess sem fram kemur í símtalinu og samhengisins þá er í fyrsta lagi alveg klárt mál að það er verið að tala um Ólaf Ólafsson í þessu símtali. Í öðru lagi, sem kemur í ljós fyrir öllum sem lesa dóminn, þá eru fullt af öðrum gögnum, tölvupóstar og framburðir og annað, sem benda til aðkomu Ólafs. Þannig að ef þessu símtali yrði kippt út yrði hann sakfelldur eftir sem áður,“ sagði Björn í samtali við Kjarnann í vor.
Þrír þegar vikið úr endurupptökunefnd
Tveir aðalmenn og einn varamaður í endurupptökunefnd hafa þegar vikið sæti vegna vanhæfis í málinu eftir að Ólafur lagði inn sína endurupptökubeiðni í maí. Á meðal þeirra sem vikið hafa sæti er Björn L. Bergsson, formaður nefndarinnar. Auk hans hafa vikið Þórdís Ingadóttir og Sigurður Tómas Magnússon, varamaður Þórdísar í nefndinni. Lögmaður Ólafs hefur einnig farið fram á að Kristbjörg Stephensen, borgarlögmaður og varamaður Björns í nefndinni, víki sæti.
Í Viðskiptablaðinu í dag kemur fram að Kristbjörg muni ekki víkja sæti, samkvæmt niðurstöðu nefndarinnar sem tók málið fyrir. Því sé komið á hreint að Kristbjörg muni eiga sæti í nefndinni ásamt Elínu Blöndal, lögfræðingi hjá Háskóla Íslands, og Berglindi Svavarsdóttur hæstaréttarlögmanni.