Hríðskotabyssurnar 150 sem íslenska lögreglan fékk gefins frá Noregi, komu frá norska hernum, ekki norsku lögreglunni. Þetta staðfestir Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra, í samtali við Kjarnann. Norska lögreglan sóttist eftir því að fá byssurnar sem sendar voru til Íslands, en fékk ekki.
DV greindi frá því í gærmorgun að íslenska lögreglan hefði keypt fjölmargar MP5-hríðskotabyssur frá Noregi. Ríkislögreglustjóri og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, dómsmálaráðherra, hafa neitað því að byssurnar hafi verið keyptar. Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs, sagði til að mynda að byssurnar hafi verið gjöf frá Norðmönnum. Í fjölmiðlum í gær var því haldið fram að byssurnar hafi komið frá norsku lögreglunni, sem hafi verið að afleggja MP5-byssunum.
Norska lögreglan vill fá byssurnar
Það er ekki rétt því það er norski herinn sem er að afleggja byssunum til að taka upp MP7-hríðskotabyssur. Þetta staðfestir Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, í samtali við Kjarnann. Í frétt norska dagblaðsins Verdens Gang frá því í júlí kemur fram að norska lögreglan vilji njóta forgangs þegar kemur að því að yfirtaka aflögð vopn hjá norska hernum. Þörf hennar fyrir vopn hafi aukist mikið á undanförnum árum.
Í fréttinni er haft eftir Kaare Songstad, yfirmanni hjá norsku lögreglunni, að lögreglan viti að herinn eigi fullt af MP5-hríðskotabysum á lager. „Hann þarf þær ekki, en við þurfum þær. Þess vegna óskum við eftir að taka yfir stóran hluta af þessum vopnum“.
60 byssur seldar til íslensku Landhelgisgæslunnar?
Í sömu frétt er sagt frá því að mikil eftirspurn sé víða að eftir hríðskotabyssunum. Þar er því einnig haldið fram að norski herinn hafi selt 60 MP5-hríðskotabyssur til íslensku Landhelgisgæslunnar. Jón Bjartmarz sagði í Kastljósi í gær að landhelgisgæslan hafi haft milligöngu um að íslenska lögreglan fékk vopninn frá Norðmönnum. Þegar Kjarninn bar fréttina undir Jón og hvort Landhelgisgæslan hefði keypt byssurnar, líkt og haldið er þar fram, segist Jón ekki geta svarað fyrir hönd Landshelgisgæslunnar. Ekki hefur náðst í Georg Kr. Lárusson, forstjóra Landhelgisgæslunnar, í morgun.