Um hundrað manns eiga aðild að hópmálsókn gegn Vodafone vegna gagnalekans í nóvember 2013. Þá láku á netið um 80 þúsund textaskilaboð sem send höfðu verið af heimasíðu Vodafone á síðustu þremur árum, mikill fjöldi lykilorða viðskiptavina að notendasíðum, fjögur kreditkortanúmer og gríðarlegt magn upplýsinga um nöfn og kennitölur viðskiptavina. Fram kemur á vefnum Spyr.is að um hundrað einstaklingar eiga aðild að hópmálsóknarmáli gegn Vodafone.
„Málið er þannig statt að stefnuritun hefur verið í gangi en við höfum verið að bíða eftir endanlegri niðurstöðu Póst- og fjarskiptastofnunar varðandi málið. Stofnunin hefur boðað að niðurstöðu sé að vænta fyrir sumarið og í kjölfar þess munum við fara af stað með málið,“ er haft eftir Skúla Sveinssyni hdl. hjá Lögvernd.
Skúli segir í svari við spurningu lesanda Spyr.is að krafa málsóknarfélagsins sem sækir málið verði miskabætur. „Ég tel að brot Vodafone liggi nokkuð ljóst fyrir, bæði hefur félagið brotið lög varðandi persónuvernd og svo fjárskiptalög. Þessi lögbrot eiga að leiða til bótaskyldu félagsins á því tjóni sem varð sem fellst að stærstum hluta í óþægindum fyrir þá sem áttu þessu gögn sem láku út. Krafa málsóknarfélagins verður um miskabætur til handa þessum hópi.“
Einstaklingur vill 90 milljónir
Í mars síðastliðnum greindi Vodafone frá öðru dómsmáli vegna lekans en félagið er skráð í Kauphöllinni og tilkynnti um stefnuna til Kauphallarinnar. Í því máli krefst einstaklingur 90 milljóna króna í skaða- og miskabætur auk vaxta og málskostnaðar. Áður hafði annar einstaklingur stefnt félaginu vegna lekans og krafist 8,4 milljóna króna. Vodafone sagði þá að félagið telji verulegan vafa leika á bótaskyldu og að dæmdar fjárhæðir hafi í öllu falli óveruleg áhrif á rekstur og efnahag félagsins, telji dómstólar bótaskyldu yfir höfuð til staðar.