Lögregla leitaði á heimilum Hlínar Einarsdóttur og Malínar Brand í kjölfar þess að þær voru handteknar fyrir að reyna að kúga fé út úr Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra. Í húsleitunum var sönnunargagna leitað og símar og tölvur í eigu þeirra gerð upptæk. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Systurnar voru handteknar sunnan við Vallahverfi í Hafnarfirði á föstudag þegar þær ætluðu að vitja þess fjár sem krafist hafði verið að Sigmundur Davíð greiddi til að koma í veg fyrir að upplýsingar sem áttu að geta komið honum illa yrðu gerðar opinberar. Samkvæmt fram komnum upplýsingum var sent bréf, stílað á eiginkonu forsætisráðherra, á heimili þeirra á fimmtudag og þar sagt að ef nokkrar milljónir króna yrðu ekki greiddar myndu upplýsingarnar fara til fjölmiðla.
Samkvæmt heimildum Kjarnans snérust umræddar upplýsingar um að forsætisráðherra ætti að hafa beitt sér með einhverjum hætti fyrir því að Björn Ingi Hrafnsson, útgefandi og aðaleigandi DV, myndi fá einhverskonar fjárhagslega fyrirgreiðslu. Hlín Einarsdóttir er fyrrum sambýliskona Björns Inga til margra ára en sambandi þeirra lauk í fyrra.
Sigmundur Davíð sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann sagðist engin fjárhagsleg tengsl hafa við Björn Inga né hafi hann komið að kaupum Vefpressunnar á DV í fyrrahaust á neinn hátt. Björn Ingi sagði sömuleiðis í stöðuuppfærslu á Facebook að forsætisráðherra ætti ekki hlut í DV.
Malín Brand sagði í viðtali við Vísi í gær að hún hefði ekki skipulagt fjárkúgunina og ekki sent bréfið á eiginkonu forsætisráðherra. Hennar mistök hafi verið að fara með systur sinni í afdrifaríka ökuferð sunnan Vallahverfis á föstudag þar sem þær voru handteknar. Játning um aðild að málinu liggur fyrir að hálfu beggja systranna. Málið telst að mestu upplýst en ekki hefur verið tekin ákvörðun um ákæru. Allt að sex ára fangelsi getur legið við broti sem þessu.