Nýtt húsnæðisbótakerfi, þar sem húsnæðisbætur eiga að koma í stað húsaleigubóta, myndi skila sér helst til heimila sem hafa miklar tekjur. Hlutfallslega yrði niðurgreiðsla húsaleigu meiri eftir því sem tekjur heimila eru hærri. Þetta segir í umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarp um húsnæðisbætur, sem RÚV greindi frá í kvöldfréttum.
Þetta er þvert á yfirlýst markmið frumvarpsins, sem var ætlað að auka stuðning við efnalitla leigjendur.
Þá myndi frumvarpið að mati fjármálaráðuneytisins leiða til þess að leiguverð hækki, sem kynni að skila leigusölum meiri ávinningi en leigjendum. Útgjöld ríkissjóðs gætu aukist um rúma tvo milljarða króna á ári og verði um 6,6 milljarðar frá og með 2017, ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt, en árið 2017 á að innleiða nýja kerfið. Í umsögn fjármálaráðuneytisins kemur fram að ekki hafi verið gert ráð fyrir auknum útgjöldum í fjárlögum eða ríkisfjármálaáætlun.
Almennar húsaleigubætur munu færast til ríkisins frá sveitarfélögum samkvæmt frumvarpinu, en sérstakar húsaleigubætur verða ennþá á forræði sveitarfélaganna. Þetta fyrirkomulag myndi að mati fjármálaráðuneytisins auka rekstrarkostnað og flækja ferlið fyrir hluta þeirra sem þiggja bætur.