Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sagði í ræðu sinni á aðalfundi Seðlabanka Íslands í gær, að meginóvissan sem snéri að fjármagnshöftunum, snéri að viðbrögðum Íslendinga og íslenskra sjóða og fyrirtækja við því þegar og ef fjármagnshöft verða rýmkuð enn frekar eða losuð.
Í yfirgripsmikilli ræðu sinni sagði hann vandann sem snéri að fjármagnshöftum vera nær fordæmalausan að umfangi, og setti vandamálin í alþjóðlegt samhengi. „Í þessu sambandi hefur mér gefist vel til að opna augu erlendra aðila fyrir eðli og umfangi vandans að nefna að sameiginlegt gjaldþrot stóru bankanna þriggja er talið hafa verið þriðja stærsta gjaldþrot í sögu mannkyns. Gjaldþrot Lehmans-bankans var stærra en uppgjöri þess er ekki lokið. En okkar uppgjör á sér stað í einu minnsta ríki heimsins og því tengist mjög umtalsverður greiðslujafnaðarvandi fyrir Ísland en greiðslujafnaðarvandi leikur lítið hlutverk í uppgjöri Lehmans-búsins. Hitt sem ég nefni er að ef allar krónueignir búanna myndu bætast við núverandi aflandskrónur þá myndu þær aukast á ný í um hálfa landsframleiðslu. Við ætlum auðvitað ekki að láta þetta gerast en ef það gerðist væri hin nýja „snjóhengja“ orðin hlutfallslega mun stærri en sterlingsnjóhengja Breta eftir seinni heimstyrjöldina sem var eftir því sem ég kemst næst í kringum þriðjungur af þeirra landsframleiðslu. Það tók þá á fjórða áratug að losa þau gjaldeyrishöft sem innleidd voru meðal annars af þessum sökum,“ sagði Már.
Hann sagði ötullega vera unnið að því að losa um höftin, og greina vandamálin sem þyrfti að leysa áður en slíkt væri hægt. Þar á meðal væri að greina vandamál sem snéru að krónueign erlendra aðila og eignasöfn og hagmuni kröfuhafa slitabúanna þriggja, Kaupþings, Glitnis og Landsbankans.
„Mesta óvissan er varðandi mögulegt útstreymi á vegum innlendra aðila,“ sagði Már, og sagði að það væri í einhverjum mæli hægt að áætla þörf á því að auka á ný hlutdeild erlendra eigna í eignasafni Íslendinga, en að það gæti gerst mishratt. „Stærsti þátturinn til eða frá lýtur að trausti á Íslandi og fjármálakerfi þess þegar þar að kemur og um það er erfitt að segja til um nú. Það mun líka hafa úrslitaáhrif á mögulegt innflæði á vegum erlendra aðila á sama tíma. Það er einmitt einn af lykilþáttum í undirbúningi losunar hafta að Ísland sé talinn traustur fjárfestingarkostur og að innlendir aðilar, og þá fleiri en einungis ríkið, hafi aðgang að erlendum lánamörkuðum á sjálfbærum kjörum. Við núverandi aðstæður þýðir þetta að við þurfum þjóðarbúskap sem er í vexti og góðu ytra og innra jafnvægi. Við þurfum afgang af ríkissjóði og minnkandi skuldahlutfall hans. Við þurfum nægilegan þjóðhagslegan sparnað til að standa undir eðlilegu fjárfestingarstigi. Miðað við núverandi horfur um fjárfestingu þýðir það að við þurfum afgang af viðskiptum við útlönd. Við þurfum nægilega stóran gjaldeyrisforða til að halda uppi trausti erlendra lánveitenda og lánshæfismati og sem veitir öryggi gegn sveiflum. Við þurfum bankakerfi sem stendur traustum fótum,“ sagði Már.