Vandi flóttamanna frá Sýrlandi, Írak, Afganistan og fleiri ríkjum, sem flýja í milljónatali stríðshrjáð svæði, er gríðarlega umfangsmikill og aðkallandi, eins og Kjarninn hefur verið duglegur við að benda á síðustu mánuði og vikur.
Ísland getur lagt miklu meira af mörkum heldur en að taka á móti 50 flóttamönnum, eins og til stóð, og nú virðist sem stjórnvöld séu tilbúin að taka á móti mun fleirum. Akureyrarbær sýndi raunar strax nauðsynlegt frumkvæði, þegar bæjaryfirvöld þar sögðust tilbúin að taka á móti fleiri flóttamönnum, en bærinn tók á móti 24 flóttamönnum árið 2003 og hefur reynslan af því afar verið góð fyrir fólkið sem kom og ekki síður fyrir bæinn.
Spennandi verður að sjá hvað Reykjavíkurborg verður tilbúin að gera. Hún getur í raun borið hitann og þungann af starfi Íslands ef hún kýs að gera það. Hún býr yfir sterkum innviðum, húsaskjóli ef því er að skipta og meiri reynslu en önnur sveitarfélög, þegar kemur að málaflokki flóttamanna. Vonandi næst þverpólitísk samstaða hjá borginni um að rétta fram kröftuga hjálparhönd til þeirra sem þjást. Þörfin er mikil.