Um fátt annað er rætt en ferðaþjónustuna þessa dagana. Hvort sem það eru of margir ferðamenn, ekki nógu margir, hvar þeir gera þarfir sínar og svo framvegis.
Tveir nokkuð áhrifamiklir þingmenn stjórnarflokkanna, þau Vigdís Hauksdóttir og Jón Gunnarsson, hafa nú um helgina talað fyrir því að virðisaukaskattur verði hækkaður á ferðaþjónustuna, sem hefur að stórum hluta verið í lægra þrepi skattsins, og sumar greinar hafa verið undanþegnar skattinum.
Það þarf ekki að koma á óvart að formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, Grímur Sæmundsen, telji það „fásinnu“ að hækka virðisaukaskattinn á ferðaþjónustuna. Hann segir að það myndi skemma samkeppnisstöðu Íslands sem áfangastaðar að hækka virðisaukaskattinn. Mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa hingað til verið undanþegin virðisaukaskatti, en Bláa lónið, fyrirtæki Gríms, hefur lýst því yfir að það vilji borga virðisaukaskatt af aðgangseyrinum sem það innheimtir. Bláa lónið fékk tæplega þrjá milljarða króna í aðgangseyri árið 2013, og sú tala hefur alveg örugglega hækkað síðan.
Umræðan er að minnsta kosti komin á það stig að flestir virðast sammála um að það þurfi að grípa til einhverra aðgerða í þessum málaflokki. Spurningin er hins vegar hvað á að gera. Þar virðist ekki vera mjög mikill samhljómur.
Nú væri forvitnilegt að fara að heyra frá ráðherra ferðamála, Ragnheiði Elínu Árnadóttur, sem hefur látið lítið fyrir sér fara í umræðum um þessi mál frá því að frumvarpi hennar um náttúrupassa var hafnað algjörlega í vor. Breytingar, hverjar sem þær verða, hljóta að verða fyrir tilstilli ferðamálaráðherrans - hvað vill Ragnheiður gera?
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.