Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, er sannfærður sem aldrei fyrr um að nú sé mál málanna að breyta þingsköpum til að koma í veg fyrir málþóf á Alþingi. Svo gagntekinn er Bjarni af hugmyndinni að hann hefur nánast við hvert tækifæri ítrekað mikilvægi þess að draga tennurnar úr stjórnarandstöðunni á þinginu til að „gera starf þingsins skilvirkara og auka afköst,“ eins og Bjarni orðaði það á Facebook þar sem hann kastaði hugmyndinni fyrst fram á dögunum.
Síðast í gær ítrekaði Bjarni á sama vettvangi þá afstöðu sína að ráðast þurfi í löngu tímabærar umbætur í þinginu í þágu bættra þingstarfa og bað um leið pólitíska andstæðinga sína um að staldra við. „Það er löngu tímabært að viðurkenna að núverandi fyrirkomulag er meingallað.“
Ok. Það er alveg rétt hjá Bjarna að stundum virðast stjórnmálamenn vera forritaðir til að vera á móti öllu því sem kemur úr öðrum ranni en þeirra eigin. Hins vegar dúkkaði hugmynd Bjarna upp kollinum á sama tíma og þingið fór á hliðina eftir að meirihluti atvinnuveganefndar setti rammaáætlun í uppnám. Það breytir því ekki að hugmyndir Bjarna um aukna skilvirkni í þinginu eru alls ekki svo galnar.
En af hverju liggur Bjarna svona mikið á akkúrat núna? Hvaða stóru mál ríkisstjórnarinnar eru klár og bíða þess að vera lögð fyrir þingið, og eiga á hættu á að fá ekki umfjöllun á þeim örfáu dögum sem eftir lifir af vorþingi? Er ekki ögn kaldhæðnislegt að tala fyrir aukinni skilvirkni á þingi, þegar skilvirknin í ríkisstjórninni varðandi framlagningu stóru málanna er eins og raun ber vitni? Þegar stórt er spurt...