Farmur flutningaskiptsins Winter Bay, sem nú siglir með farm af hvalkjöti og hvalspiki úr Hvalstöðinni í Hvalfirði, er um tveggja milljarða króna virði. Frá þessu greinir Skessuhorn í dag en Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf., staðfesti virði farmsins í viðtali við norskt sjávarútvegsblað. Alls eru um 1.800 tonn af hvalkjöti- og spiki um borð. Afurðirnar eru frá vertíð síðasta sumars. Winter Bay siglir nú norðausturleið um Íshafið norðan Rússlands á leið til Japan. Kristján gerir ráð fyrir að skipið komist á leiðarenda snemma í september.
Í viðtalinu við norska sjávarútvegsblaðið gagnrýnir Kristján harðlega þau samtök sem hafa beitt sér gegn hvalveiðum. „Ég forðast ákveðið að nefna þessi samtök nöfnum sínum og gildir þá einu í hvaða samhengi það er. Þau eru á móti öllu, líka því sem er löglegt og nota gjarnan ólöglegar aðferðir til að koma sinni sýn á framfæri. Þau lifa á athyglinni sem þau fá í fjölmiðlum og ég vil ekki hjálpa til við það með því að nefna nöfn þeirra á opinberum vettvangi,“ segir Kristján, í þýðingu Skessuhorns.